Áður en þú fyllir út umsókn um heimtaug er mikilvægt að þú farir vandlega yfir gátlistann okkar.
Ef umsókn er ekki rétt út fyllt eða inniheldur rangar tæknilegar upplýsingar getur það orsakað tafir á afhendingu og spennusetningu og haft í för með sér óþarfan viðbótarkostnað fyrir þig. Þessi gátlisti á bæði við um varanlegar heimtaugar og heimtaugar til bráðabirgða.
Þegar þú sækir um heimtaug hjá Rarik, eru nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga:
Sæktu um tímanlega
Gættu þess að byrja umsóknarferlið tímanlega þar sem afgreiðsla heimtauga getur tekið tíma í framkvæmd, sérstaklega ef um nýbyggingu er að ræða. Hér er sumarið aðaltími framkvæmda og því gott að sækja um snemma á vorin.
Semdu við rafverktaka
Áður en sótt er um heimtaug þá þarftu að vera með samning við löggiltan rafverktaka sem mun annast raflagnir í byggingunni. Við mælum með að þú ráðfærir þig við hann áður en þú fyllir út umsókn um heimtaug og hafir neðangreind atriði í huga:
Stærð heimtaugar sem sótt er um. Athugið að þessar upplýsingar eiga að vera á þeim raflagnateikningum sem fylgja umsókninni.
Þarftu varanlega eða bráðabirgðaheimtaug? Með bráðabirgðaheimtaug er átt við heimtaug sem fjarlægð er að verki loknu. Gjald fyrir hana dregst ekki frá gjaldi fyrir varanlega heimtaug ef sótt er um slíkt síðar.
Bráðabirgðaheimtaugar eru aflagðar innan 24 mánaða frá tengingu þeirra.
Ef sótt er um bráðabirgðaheimtaug meðan á bygginu húsnæðis stendur og ef ætlunin er að sækja síðar um varanlega heimtaug, þá viljum við benda á að það getur verið hagkvæmara að sækja um nýja heimtaug og sækja svo um færslu heimtaugar þegar sá tími kemur.
Ef sótt er um bráðabirgðaheimtaug á byggingarlóð þá er afhendingarstaður Rarik við lóðarmörk en ef óskað er eftir bráðabirgðaheimtaug fyrir tímabundna starfsemi (t.d. matarvagna eða slíkt) þá er afhendingarstaður Rarik við næsta götuskáp eða dreifistöð.
Ef verið er að sækja um nýja heimtaug í stað bráðabirgðaheimtaugar og sótt verður um flutning heimtaugar síðar þá biðjum við um að settar séu upplýsingar um það í athugasemdarreit þar sem fram kemur hvað standi til. Sendu inn fylgigögn sem sýna bæði núverandi ósk um tengingu og fyrirhugaða framtíðartengingu. Þá er hægt að hanna heimtaugina þannig að kostnaður verði í lágmarki.
Hver er fjöldi fyrirhugaðra mæla? Venjulega er einn mælir á heimtaug en ef um er að ræða fjölbýli, þá gætu þeir verið fleiri.
Upplýsingar um rafverktaka: Þú þarft að fylla út nafn, kennitölu, netfang og símanúmer rafverktaka. Athugaðu að óskað er eftir hans persónulegu kennitölu.
Teikningar. Þú þarft að skila inn teikningum sem hluta af umsókninni (ekki heilum teikningasettum). Ef þú ert ekki viss hvaða teikningum þú átt að skila inn, mælum við með að þú heyrir í fagmanni.
Útvegaðu þau gögn sem þurfa að fylgja umsókninni
Fyrir varanlega heimtaug þarf að skila inn eftirfarandi gögnum:
Ef sótt er um 5 mæla eða fleiri þarf einfalda útlitsmynd af mælatöflu.
Ef sótt er um heimtaugar sem eru 315 amper (A) eða stærri þarf einnig að hafa eftirfarandi fylgiskjöl: - Afláætlun - Einfalda útlitsmynd af mælatöflu.
Ef sótt er um heimtaugar sem eru 400 amper (A) eða stærri mun Rarik óska eftir skammhlaupsútreikningum þegar hönnun verks er hafin. Ekki þarf að skila þeim inn með umsókn.
Fyrir bráðabirgðaheimtaug þarf að skila inn:
Afstöðumynd sem sýnir hvar á að tengja heimtaugina.
Stöðuleyfi: Ef sveitarfélagið gerir kröfu um stöðuleyfi fyrir þá starfsemi sem bráðabirgðaheimtaugin er ætluð fyrir, þarf að skila því inn og er það staðfesting á að Rarik má leggja lagnir á svæðinu.
Almennar upplýsingar í umsókn
Heimilisfang verkstaðar, landnúmer og póstnúmer. Hægt er að sækja upplýsingar beint í fasteignaskrá í skráningarforminu. Ef þessar upplýsingar eru ekki til þá er hægt að staðsetja verkstað á korti eða setja inn hnit.
Orkukaupandi: Nafn greiðanda, kennitala, farsímanúmer og netfang. Athugið að greiðandi er sá aðili sem verður skráður fyrir heimlögninni. Mikilvægt er að skráður greiðandi sé í viðskiptasambandi við söluaðila rafmagns. Sé söluaðili rafmagns ekki valinn eða tilgreindur er ekki hægt að spennusetja heimtaugina. Viðskiptasamband söluaðila er alltaf á móti kennitölu einstaklings, ekki hjóna eða sambýlisfólks.
Nafn tengiliðar í verkefninu, símanúmer og netfang. Athugið að tengiliður er sá aðili sem Rarik verður í sambandi við hvað varðar útfærslu og framkvæmd verksins.
Kostnaður
Kynntu þér kostnað við tenginguna og athugaðu að ekki er spennusett fyrr en greiðsla hefur borist. Í gjaldskrá fyrir tengigjöld rafmagns (í kafla 1 fyrir þéttbýli og kafla 2 fyrir dreifbýli) eru upplýsingar um kostnað við að fá heimtaug.
Leyfi
Ef heimtaug fer yfir land í eigu annarra þá berð þú ábyrgð á að útvega leyfi þess landeiganda. Rarik getur upplýst um hvort þú þarfnast þessa leyfis og mun einnig útvega form sem hægt er að nota.
Framkvæmd
Þú þarft að leggja, á þinn kostnað, 50 mm plaströr (ekki barka) fyrir heimtaugarstreng út fyrir lóðamörk eða að lágmarki 20 m frá byggingunni í samráði við Rarik. Öll jarðvinna innan lóðarmarka er í þinni umsjá eða verktaka á þínum vega. Lagnaskurður þarf að vera 70 cm djúpur.