Rarik ohf, sem er hlutafélag í eigu ríkisins, var stofnað 1. ágúst 2006 og tók þá við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins sem hófu starfsemi sína þann 1. janúar árið 1947.
Meginverkefni fyrirtækisins við stofnun þess var að afla almenningi og atvinnuvegum nægrar raforku á hagstæðan hátt og hefur fyrirtækið haft mikilvægu hlutverki að gegna við öflun, dreifingu og sölu á rafmagni.
Megináhersla okkar í dag er á raforkudreifingu og hefur verið unnið jafnt og þétt að uppbyggingu dreifikerfa í sveitum landsins, en um 90% af háspenntu dreifikerfi þar er í umsjón Rarik. Dreifikerfi okkar nær til Vestur-, Norður-, Austur- og Suðurlands en auk þess nær það til 50 þéttbýliskjarna víðsvegar um landið. Lengd dreifikerfisins er yfir 10.000 km og þar af er rúmlega 80% jarðstrengir (í lok árs 2024) en strengvæðing kerfisins hófst 1990 eftir mikið tjón á loftlínukerfinu af völdum veðurs. Verðlækkanir á strengjum sem gerðu þá að raunhæfum valkosti í stað hefðbundinna loftlína spilaði þar einnig inní. Eignir okkar í veitukerfum 2018 voru 44 milljarðar króna en í lok árs 2025 voru þær metnar á rúma 55 milljarða. Rarik á og rekur jafnframt fjórar hitaveitur; í Búðardal, á Blönduósi, Siglufirði og Höfn í Hornafirði. Frá 1991 til loka árs 2024 ráum við fjarvarmaveitu á Seyðisfirði en HEF veitur tóku við rekstri hennar 1. janúar 2025.
Með tilkomu nýrra orkulaga árið 2003 og ákvæðum um aðskilnað samkeppnis- og einkaleyfisþátta var ákveðið að stofna sérstakt dótturfélag, Orkusöluna, um framleiðslu og sölu á vegum fyrirtækisins. Orkusalan tók til starfa í ársbyrjun 2007 og er í eigu Rarik ohf. Orkusalan starfrækir fimm virkjanir; Rjúkandavirkjun, Skeiðsfossvirkjun, Grímsárvirkjun, Lagarfossvirkjun og Smyrlabjargaárvirkjun. Uppsett afl þessara virkjana er 37 MW og er Lagarfossvirkjun þeirra stærst.
Með breytingum á raforkulögum hætti Rarik að sinna heildsölu rafmagns. Landsnet hf tók til starfa 1. janúar 2005 og er hlutverk þess að sinna meginflutningi rafmagns í landinu. Meirihluti stofnlínukerfis Rarik var seldur til Landsnets hf og eignaðist fyrirtækið þá 22,5% hlut í Landsneti. Ríkið keypti eignarhlut okkar í Landsneti árið 2022.
Á árinu 2008 stofnuðum við sérstakt félag um þróunarverkefni hér á landi og erlendis. Félagið hlaut nafnið Rarik Orkuþróun. Félaginu er ætlað að halda utan um verkefni sem hafa verið í vinnslu hjá fyrirtækinu og finna ný. Rarik Orkuþróun er ætlað að undirbúa og þróa verkefni á sviði endurnýjanlegra orkugjafa en mun fá aðra fjárfesta til liðs við sig þegar kemur að fjármögnun stærri verkefna.
Starfsmenn Rarik samstæðunnar, þ.e. Rarik og Orkusölunnar, voru 252 í árslok 2024. Þar af 223 hjá Rarik en af þeim starfa tæp 30% á skrifstofu okkar í Reykjavík en yfir 70% starfa á 20 starfsstöðvum okkar víðs vegar um landið.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15