Snjallmælar mæla rafmagns- og vatnsnotkun viðskiptavina okkar og gera þeim kleift að fylgjast með sinni notkun í rauntíma á mínum síðum.
Helsti ávinningur snjallmæla
Nákvæmari yfirsýn yfir notkun: Með snjallmælum fáum við notkunargögn í rauntíma. Það gerir okkur kleift að senda orkureikninga sem endurspegla raunverulega notkun hverju sinni og minnkar þörf á áætlunum eða leiðréttingum í framtíðinni.
Þægindi fyrir þig: Þú þarft ekki lengur að lesa af mælum og senda okkur álestur. Snjallmælirinn sér sjálfur um að senda notkunargögnin í rauntíma, sem gerir ferlið einfaldara og hraðara.
Betri yfirsýn fyrir viðskiptavini: Í framtíðinni verður hægt að fylgjast með orkunotkun í rauntíma – til dæmis daglega, vikulega og mánaðarlega. Þannig getur þú séð strax hvaða breytingar á notkun hafa áhrif á orkureikninginn.
Hvenær fæ ég snjallmæli?
Flettu upp þínu heimilisfangi hér á kortasjánni til að sjá hvenær áætlað er að skipta um mæla á þínu svæði:
Algengar spurningar um snjallmæla:
Hvernig fara mælaskipti fram?
Þegar mælaskipti eru að hefjast á nýju svæði, sendum við út SMS með hlekk á kynningarbréf á þá viðskiptavini sem eru með skráð farsímanúmer.
Í kjölfarið hefur starfsfólk Rarik eða verktakar á vegum okkar samband við viðskiptavini varðandi tímasetningu mælaskiptanna. Þau sem ekki hafa skráð símanúmer fá heimsókn en við bendum á að hægt er að bæta við eða uppfæra tengiliðaupplýsingar á mínum síðum.
Húsráðandi eða einhver á hans vegum þarf að vera heima þegar mælaskiptin fara fram. Gera má ráð fyrir að rafmagns- og/eða heitavatnslaust verði meðan á mælaskiptunum stendur en það tekur u.þ.b. 30 mínútur að skipta gamla mælinum út fyrir snjallmæli.
Hvað er snjallmælir?
Snjallmælar, líkt og hefðbundnir orkusölumælar, mæla notkun viðskiptavina á rafmagni og/eða heitu vatni en á mun nákvæmari hátt en áður. Að auki safna þeir gögnum um ástand dreifikerfis og afhendingargæði.
Snjallmælarnir senda gögnin sjálfkrafa inn í kerfi Rarik svo álestur verður óþarfur og viðskiptavinir greiða ávallt fyrir raunnotkun í lok hvers mánaðar.
Snjallmælar eru hluti af snjöllum veitukerfum (e. smart grid).
Af hverju þarf að skipta út orkumælum?
Margar góðar ástæður liggja að baki því að ráðast í mælaskipti.
Snjallmælar eru mikilvægur hluti af þriðju orkuskiptunum því þeir mæla orku og afl bæði til og frá veitu og munu þannig gera almennum viðskiptavinum kleift að selja orku aftur inn á dreifikerfið t.d. frá rafbílum og sólarsellum.
Snjallmælar safna notkunarferlum (15-60 mínútna gildi) sem gefur viðskiptavinum möguleika á að nýta tímaháða taxta bæði hjá orkusala og veitufyrirtæki. Þessi eiginleiki eykur nýtingu m.a. á dreifikerfi okkar og seinkar fjárfestingum, sem til lengri tíma lækkar dreifikostnað.
Búist er við að löggjafarvaldið setji fljótlega lög sem skilda dreifiveitur til að nota snjallmæla.
Mælaframleiðendur munu brátt einungis bjóða upp á snjallmæla og þeir munu verða hinir hefðbundnu sölumælar.
Snjallmælar minnka líkurnar á „notkunarslysum“, og gefa viðskiptavinum tækifæri til að grípa inn í tímanlega auk þess að auka meðvitund um orkusóun.
Heimsóknir starfsfólks Rarik verða óþarfar og álag á þjónustuver okkar vegna álestra og leiðréttinga mun minnka.
Álestrar vegna söluaðilaskipta og flutnings verða auðveldari og öruggari.
Hvaða áhrif hafa þessi mælaskipti fyrir Rarik?
Einfaldast væri að segja að snjallmælar munu gera þjónustu Rarik skilvirkari. Snjallmælar gera Rarik meðal annars kleift að bæta nýtingu á dreifikerfi Rarik, auðveldar bilanagreiningu og seinkar fjárfestingum, sem til lengri tíma lækkar dreifikostnað.
Hver hefur aðgang að gögnunum sem snjallmælirinn safnar?
Einungis starfsfólk Rarik sem þarf að vinna með upplýsingar frá snjallmælum hefur aðgang að þeim. Starfsfólk og verktakar sem vinna fyrir RARIK eru, eins og áður, bundin trúnaði um allar upplýsingar viðskiptavina.
Er rafsegulgeislun frá mælunum?
Rafsegulbylgjur sem koma frá snjallmælum eru mun minni en t.d. rafsegulbylgur frá farsímum og mælarnir eru flestum stundum í meiri fjarlægð frá fólki en farsímar. Snjallmælar uppfylla öll skilyrði laga og reglugerða þegar kemur að rafsegulbylgjum.
Er hægt að „hakka“ eða brjótast inn í gögn snjallmælana?
Snjallmælar og þau gögn sem þeir taka við og senda frá sér eru dulkóðuð til að koma í veg fyrir að hægt sé að eiga við þau. Mælarnir uppfylla öll öryggisskilyrði sem þýðir að erfitt er fyrir „hakkara“ að brjótast inn í þá.
Hafa skal þó í huga að ekkert kerfi er 100% öruggt og tölvuþrjótar finna sér sífellt nýjar leiðir til að komast yfir upplýsingar og brjótast inn í kerfi. Oftar en ekki nýta þeir sér traust fólks til að blekkja það og komast yfir innskráningarupplýsingar.
Við hvetjum viðskiptavini okkar til að gæta ítrustu varkárni hvar sem er á Netinu og gefa aldrei upp persónuupplýsingar, leyniorð eða annað sem gæti auðveldað óprúttnum aðilum að brjótast inn í kerfi sem geyma viðkvæmar upplýsingar.