ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Orðasafn

Afhendingargæði:

Gæði spennu og tíðni ásamt öryggi afhendingar raforku í flutnings- og dreifikerfum og vinnslufyrirtækjum auk upplýsingargjafar til notenda.

 

Afhendingarspenna

Sú staðalspenna (málspenna) sem rafmagn er afhent á til viðskiptavinar.

 

Afhendingarstaður

Staður í flutnings- eða dreifikerfi þar sem innmötun eða úttekt raforku fer fram.

 

Afhendingaröryggi:

Lýsing á áreiðanleika afhendingar raforku, sem tengist rofi á raforku.

 

Afl

Afl er augnabliksgildi orkunnar. Í orkuviðskiptum er það yfirleitt mælt sem sem meðaltal orku í 15 mínútur eða í eina klukkustund. Grunneining afls er Watt, sem skammstafað er W. Í orkuviðskiptum er til hagræðis algengast að tala um kW sem eru þúsund W eða um MW sem eru milljón W.

 

Almennur notandi:

Sá sem kaupir raforku til eigin nota, en er ekki stórnotandi.

 

Ábyrgðarmaður raforkuvirkis:

Eigandi, umráðamaður eða annar sá sem tilnefndur hefur verið til að annast uppsetningu eða rekstur raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga og ber ábyrgð á lögmætu ástandi þeirra.

 

Bilun:

Það ástand þegar eining í raforkukerfi fer úr rekstri eða hefur takmarkaða getu til að sinna hlutverki sínu.

 

Dreifikerfi

Raflínur og strengir sem ekki teljast til flutningskerfisins, ásamt mannvirkjum og búnaði þeim tengdum til og með heimtaug. Mælar og mælabúnaður hjá notendum teljast til dreifikerfis.

 

Dreifiveita

Fyrirtæki sem hefur sérleyfi til dreifingar raforku á afmörkuð svæði.

 

Dreifiveitusvæði

Landsvæði þar sem dreifiveita hefur einkarétt og skyldu til dreifingar raforku.

 

Fasvik

Í riðstraumskerfi eins og í raforkukerfinu sveiflast gildi straums og spennu stöðugt með tíðni sem er 50 sinnum á hverri sekúndu, eða 50 Hz. Straumur og spenna sveiflast þó ekki í sama fasa heldur. Þannig nær straumurinn hámarksgildi sínu í hverri sveiflu örlitlu augnabliki á eftir spennunni. Bilið sem þarna er á milli er kallað fasvik og er mælt í gráðum eða svokölluðum fasviksstuðli. Fashorn hefur bein áhrif á hversu mikið launafl er í kerfinu.

 

Fasviksstuðull

Fasviksstuðull er mælikvarði á fasvik og er skilgreindur sem kósínus af fasvikshorni. Hann segir jafnframt til um hvert hlutfall launafls og raunafls er í kerfinu.

 

Flutningskerfi

Raflínur og mannvirki þeim tengd sem nauðsynleg eru til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna. Það nær frá háspennuhlið stöðvarspenna virkjana, sem tengjast því að útgangandi rofareit í tengivirki flutningsfyrirtækis til dreifiveitu/stórnotanda. Á Íslandi hefur Landsnet hf. einkaleyfi skv. raforkulögum til að reka flutningskerfi.

 

Flutningsvirki

Raflína eða búnaður henni tengdur til flutnings raforku.

 

Háspenna

Háspenna er spenna yfir 1000 V. Háspenna er notuð til flutnings og dreifingu raforku. Bæði háspenna og lágspenna eru notuð til dreifingar raforku.

 

Heildarmat á bjögun:

Heildaryfirsveiflubjögun, THDu-i (Total Harmonic Distorsion) sbr. 11 gr.

 

Heimtaug:

Raflína sem tengir veitu notanda við dreifikerfi.

 

Hæg breyting á virku spennugildi:

Breyting á 10 mínútna meðalgildi virks spennugildis.

 

IEC:

Alþjóðleg staðlasamtök á raftæknisviði, International Electrotechnical Commission.

 

Innmötun

Rafmagn sem matað er inn á flutningskerfi eða dreifikerfi.

 

Kerfismínútur (KM):

Stuðull sem gefur til kynna hve alvarlegt einstakt tilvik skertrar orkuafhendingar er.

 

kV, kW, MW, kW, kWh

Í umfjöllun um raforkukerfi og í orkuviðskiptum eru notaðar margvíslegar eðlisfræðilegar einingar. Sumar þeirra eru það litlar að óhentugt er að nota þær beint þegar verið er að fjalla um hagnýtar stærðir. Til hagræðis er því bætt við bókstaf framan við eininguna til að stækka hana. Ef bætt er k framan við eininguna að átt er við 1000 einingar svipað og einn km er 1000 metrar. Ef bætt er M framan við eininguna er átt við milljón einingar.

 

1000 Volt = kV, borið fram kílóvolt

1000.000 Volt = MV, borið fram mega Volt

1000 W = kW, borið fram kílóvött

1000 Wh = kWh, borið fram kílóvattstundir

 

Launafl

Raffræðilegt hugtak á hliðrun straums og spennu í riðstraumskerfi. Í riðstraumskerfi eins og raforkukerfið er sveiflast hluti aflsins fram og til baka. Það hefur áhrif á strauminn sem flæðir í kerfinu en skilar ekki gagnlegri vinnu. Það er kallað launafl og er mælt í einingunni Var. Í orkuviðskiptum er yfirleitt notuð einingin kVar sem samsvarar eitt þúsund Var.

 

Lágspenna

Lágspenna er spenna undir 1000 V. Lágspenna er notuð í venjulegum neysluveitum og við dreifingu raforku.

 

Lágspennudreifikerfi rafveitna eru að jafnaði rekin með þrífasa riðstraum. Málgildi spennu á afhendingarstöðum rafveitna í enda heimtaugar eru:

  • 230 V á milli fasa í þriggja fasa, þriggja leiðara kerfum.
  • 230 V á milli fasa og N-leiðara og 400 V á milli fasa í þriggja fasa, fjögurra leiðara kerfum.

Spenna má víkja +/- 10% frá þessum gildum. Í strjálbýli er einnig rekið einfasa riðstraumskerfi

 

Löggiltur rafverktaki:

Sá sem hlotið hefur löggildingu [Mannvirkjastofnunar] 2) til rafvirkjunarstarfa.

 

Málspenna / nafnspenna kerfis:

Sú riðspenna sem notuð er til að einkenna kerfi eða hluta þess.

 

Neysluveita

Neysluveita er raflögn og rafbúnaður innan við stofnkassa í húsum. Á einni heimtaug geta verið fleiri en ein neysluveita. Raflagnir húsa skulu alltaf unnar á ábyrgð og undir handleiðslu löggilts afverktaka. Eigandi neysluveitu er ábyrgur fyrir nýlögn, stækkun, breytingu og viðhaldi veitunnar

frá tengistað heimtaugar.Undanskilið er viðhald mælitækja vegna raforkusölu og annars búnaðar sem dreifiveita setur upp.

 

Notandi

Sá sem kaupir raforku til eigin nota.

 

Notkunarstaður:

Sá staður þar sem dreifiveita afhendir orku til almenns notanda.

 

Orka

Orka er eðlisfræðileg grundvallarstærð. Hún segir til um magn vinnu sem viðkomandi orkuberi hefur að geyma. Raforka er mjög fullkominn orkuberi því orkan sem hún geymir má auðveldlega flytja langar leiðir og breyta á mjög skilvirkan hátt í annars konar form orku, svo sem hreyfiorku, varmaorku eða ljósorku. Orkuna sem fólgin er í rafmagni má reikna sem margfeldi straums og spennu. Grunneining orku er Joule sem skammstafað er J, en aðrar orkueiningar eru líka algengar. Í orkuviðskiptum er algengast að nota eininguna kílóvattstund, kWh, sem samsvarar orku sem eitt þúsund Wött gefa í eina klukkustund.

 

Ósamfasa rafali

Ósamfasa rafali er háður segulmögnun frá raforkukerfi til að geta framleitt rafmagn. Það þýðir að ef raforkukerfið verður spennulaust þá hættir rafalinn að framleiða rafmagn.

 

Raforkukerfi

Allur sá búnaður sem notaður er við vinnslu, flutning og dreifingu raforku og myndar starfræna heild.

 

Raforkuver/virkjun

Mannvirki sem notað er til vinnslu raforku. Tvær eða fleiri einingar sem mynda eðlilega heild og tengjast flutningskerfinu eða dreifkerfi gegnum sameiginleg tengivirki teljast ein virkjun.

 

Raforkuvirki:

Mannvirki til vinnslu og dreifingar rafmagns.

 

Raunafl

Afl er augnabliksgildi orkunnar. Raunafl er sá hluti aflsinns sem nota má til að framkvæma raunverulega vinnu, svo sem til að knýja velar.

 

Rekstrartruflun:

Sjálfvirk útleysing, handvirkt rof sem ekki var gert ráð fyrir eða mis­heppnuð innsetning við bilun í raforkukerfinu.

 

Samfasa rafali

Samfasa rafali er með eigin segulmögnun og getur því framleitt rafmagn óháð raforkukerfinu.

 

Skerðanleg orka / skerðanlegur flutningur / skerðanleg dreifing

Raforkunotkun sem flutningsfyrirtæki eða dreifiveitu er heimilt að skerða vegna tilvika sem tilgreind eru í skilmálum um skerðanlega orku. Skömmtun skv. raforkulögum er hér undanþegin.

 

Skerðing:

Ástand sem einkennist af því að afhending raforku er skert eða takmörkuð til eins eða fleiri notenda og veituspenna er undir 1% af nafnspennu kerfis.

 

Skert orka / raforkuskerðing / ekki afhent orka

Áætlað magn raforku sem ekki var unnt að afhenda notanda eða dreifiveitu vegna truflunar í raforkukerfinu.

 

Spenna

Spenna er styrkur rafmagns. Líkja má rafmagni við rennsli vatns í röri og spennan samsvarar þá þrýstingi í rörinu. Því meiri spenna, því meiri styrkur, en því meira vatnsmagn, því meiri straumur. Mælieining spennu er Volt, sem skammstafað er sem V. Stundum er talað um kV, sem samsvara þúsund V.

 

Spennublikk:

Notað til að lýsa óstöðugum sjónrænum áhrifum ljóss vegna hraðra breyt­inga á spennu eða reglulegum endurteknum breytingum á spennubylgjunni, sbr. 11. gr.

 

Spennufrávik

Frávik spennu frá leyfilegum vikmörkum spennugæða.

 

Spennugæði:

Lýsing á nothæfi rafmagns, sem tekur til tíðni spennu, virks gildis og bylgjulögunar hennar.

 

Spennumisvægi:

Ójafnt virkt gildi spennu í þriggja fasa kerfi og/eða misstór horn milli fasa spennu, sbr. 11. gr.

 

Spennuþrep:

Skyndileg stök breyting spennu milli tveggja stöðugra samfelldra spennu­gilda af óþekktri tímalengd, sbr. 11. gr.

 

Straumur

Líkja má rafmagni við rennsli vatns í röri og spennan samsvarar þá þrýstingi í rörinu. Því meiri spenna, því meiri styrkur, en því meira vatnsmagn, því meiri straumur. Mælieining straums er Ampere, sem skammstafað er sem A.

 

Stórnotandi

Notandi sem er yfir stærðarmörkum raforkulaga um skilgreiningu stórnotanda.

 

Stuðull um meðallengd skerðingar, straumleysismínútur:

Þessi stuðull metur hve lengi skerðing hefur staðið miðað við orkuskerðingu og heildarorkuafhendingar.

 

Stuðull um rofið álag (Power Interruption Index):

Þessi stuðull er hlutfall samanlagðrar aflskerðingar og mesta álags á kerfið.

 

Sölufyrirtæki

Fyrirtæki sem selur raforku eða annast raforkuviðskipti, hvort sem er í heildsölu eða smásölu. Leyfi þarf til að stunda raforkuviðskipti, eins og nánar er kveðið á um í raforkulögum.

 

Tíðni

Í riðstraumskerfi eins og í raforkukerfinu sveiflast gildi spennu stöðugt milli hæsta og lægsta gildis. Tíðni er mælikvarði á hversu hröð sveiflan er. Er hún mæld í hversu oft sveiflan endurtekur sig á hverri sekúndu. Í íslenska raforkukerfinu er tíðnin 50 sinnum á sekúndu. Eining tíðni er Hertz, sem skammstafað er Hz og því er eðlileg tíðni raforkukerfisins 50 Hz.

 

Tæknilegir tengiskilmálar raforkudreifingar:

Tæknilegir tengiskilmálar raforkudreifingar (TTS), útgefnir af Samorku 2001 og staðfestir af iðnaðarráðuneytinu 31. ágúst sama ár.

 

Viðskiptavinir flutningskerfis/dreifiveitna:

Dreifiveitur, vinnslufyrirtæki og sölufyrirtæki raforku og notendur, sem hafa þörf fyrir að fá raforku flutta.

 

Vinnslufyrirtæki

Fyrirtæki sem stundar vinnslu á raforku eða hefur fengið virkjunarleyfi.

 

Virkjunarleyfi

Leyfi sem veitt er skv. raforkulögum til að reisa og reka raforkuver.

 

Yfirsveiflur:

Sínus-löguð spenna með tíðni sem er margfeldi af grunntíðni spennu eða straums, og hægt er að meta með afstæðum styrk, Uh borið saman við grunnspennu, sbr, 11. gr.

 

 

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik