Frá miðnætti í kvöld (aðfaranótt þriðjudagsins 19. ágúst) og til klukkan 8 á þriðjudagsmorgunn verður keyrt á varaafli í Vík og nágrenni og rafmagnslaust verður hjá viðskiptavinum okkar undir Eyjafjöllum. Þetta orsakast af vinnu Landsnets við tengivirki í Rimakoti en gera þarf breytingar á tengivirkinu vegna nýs jarðstrengs milli Hellu og Rimakots og nýrra sæstrengja milli Rimakots og Vestmannaeyja.
Á Vík er gott varaafl til staðar sem þjónar bæjafélaginu og Mýrdalnum. Þó þykir okkur rétt að vara við mögulegum truflunum á dreifingu rafmagns í Mýrdal og að Kirkjubæjarklaustri á þessum tíma ef óvænt atvik skyldu verða, s.s. áflug fugla á línur. Sveitin undir Eyjafjöllum mun verða án rafmagns meðan á vinnu Landsnets stendur og hafa viðskiptavinir okkar þar verið látnir vita. Við viljum biðja þau velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda. Ekki ætti að koma til rafmagnstruflana á Kirkjubæjarklaustri.
Allar nánari upplýsingar varðandi truflanir má fá hjá stjórnstöð okkar í síma 528 9000 og kort af svæðinu má nálgast hér.
Við viljum biðja íbúa í Vík og Mýrdal að fara sparlega með rafmagn í nótt til að létta undir með varaaflsvélunum.
Hjálpumst öll að við að tryggja stöðugt rafmagn til allra sem njóta varaafls og komum í veg fyrir truflanir vegna álags.
Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-14