Við treystum á störf björgunarsveita um allt land í starfsemi okkar og þegar á reynir eru þær ávallt til taks. Við höfum stutt við starfsemi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar um nokkurt skeið og ætlum okkur svo sannarlega að gera það áfram.
Rarik og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa því endurnýjað samstarfssamning sinn um öryggi og gagnkvæman stuðning. Samningurinn kveður á um að við getum nýtt fræðslu og aðstöðu Björgunarskóla Landsbjargar og að þau geti jafnframt leitað til okkar eftir fræðslu fyrir sína sjálfboðaliða. Hér eftir sem hingað til getum við svo treyst á aðstoð björgunarsveita um allt land þegar hætta steðjar að eða við sérstakar aðstæður á verkstöðum.
Samstarfssamningur okkar við Landsbjörgu kveður á um að við munum styrkja starfsemi félagsins um kr. 2.500.000 á ári næstu þrjú árin, eða um samtals kr. 7.500.000. Auk fjárhagslegs stuðnings munum við fræða sjálfboðaliða björgunarsveitanna um raföryggi og verklag í þeim aðstæðum sem kunna að koma upp í dreifikerfinu, t.d. ef staurar brotna eða línur slitna. Slík þekking og samvinna hefur reynst ómetanleg þegar bregðast þarf hratt og örugglega við erfiðum aðstæðum víða um land. Styrkur okkar til Landsbjargar styður við starf allra björgunarsveita á landinu sem og önnur mikilvæg verkefni félagsins.
Samningurinn var undirritaður þann 6. nóvember og tekur gildi á næsta almanaksári. Við undirritun samningsins fengum við auk þess í hendur nýjan og glæsilegan neyðarkall en allur hagnaður af sölu hans rennur til björgunarsveita og slysavarnardeilda og styður við gríðarlega mikilvægt starf þeirra.
Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-14