ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Minnt á mikilvægt hlutverk RARIK í raforkuöryggi á aðalfundi RARIK

Aðalfundur RARIK var haldinn í dag og var um hefðbundinn aðalfund stjórnar að ræða. Engar breytingar voru gerðar á stjórn að þessu sinni. Fundinum stýrði Stefán A. Svensson, hæstaréttarlögmaður og eigandi hjá Juris.

Góð niðurstaða hjá RARIK

Rekstur RARIK samstæðunnar gekk vel á árinu 2023 og var betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Tekjur af dreifingu og raforkusölu voru u.þ.b. 14% hærri en árið áður þrátt fyrir 11% hækkun á rekstrargjöldum. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBITDA) hækkaði um tæplega 22% frá árinu áður.

Hagnaður RARIK eftir tekjuskatt var 1,5 milljarðar króna samanborið við 2,5 milljarða árið á undan. Allar tekjur samstæðunnar voru umfram áætlanir en í byrjun árs 2023 var gjaldskrá dreifingar hækkuð um 1,6% í dreifbýli og 3,1% í þéttbýli. Verðskráin var aftur hækkuð um 9,8% þann 1. nóvember en þrátt fyrir þessar hækkanir vantar talsvert á að tekjuheimildir dreifingarinnar séu fullnýttar. Heildarrekstrartekjur á árinu voru 20,7 milljarðar króna eða um 13% hærri en árið áður og heildarrekstrargjöld voru 17,3 milljarðar króna.

 

Heildareignir RARIK í árslok voru 94 milljarðar króna og höfðu aukist um 5,1 milljarð milli ára. Heildarskuldir námu 35,7 milljörðum og hækkuðu um 2,6 milljarða. Eigið fé var 58 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið er 62%. Fjárfestingar á árinu 2023 námu 7,7 milljörðum samanborið við 6,7 milljarða króna árið 2022.

Ingunn Agnes Kro stjórnarformaður RARIK að flytja ávarp sitt á aðalfundi RARIK 2024
Ingunn Agnes Kro stjórnarformaður RARIK að flytja ávarp sitt á aðalfundi RARIK 2024

311 milljónir í arðgreiðslu

Fundurinn hófst með ávarpi stjórnarformanns, Ingunnar Agnesar Kro, sem snerti stuttlega á helstu tölum úr ársreikningi en fjallaði sérstaklega um arðgreiðslur og hvort rétt væri að greiða út arð í stað þess að lækka verð. Ingunn sagði það vera hlutverk stjórnar að tryggja að orkuskipti gætu átt sér stað, að fólk og fyrirtæki gætu ferðast um landið á grænni orku og að atvinnulífið gæti vaxið og dafnað á grænan hátt. Þetta er verkefni sem kostar u.þ.b. 7,6 milljarða á ári og því verður stjórn RARIK að sýna ráðdeild.

 

Að sama skapi lagði Ingunn fram spurninguna hvort réttara væri þá að sleppa arðgreiðslum til íslenska ríkisins alfarið og nýta fjármunina til vaxtar. Hún sagði þetta rökrétta vangaveltu en benti á að það væri sálfræðilega hollt fyrir stjórnina og reksturinn að gera ráð fyrir arðgreiðslum því það skapaði aga í rekstrinum. Stjórnin lagði til og samþykkti 311 milljóna króna arðgreiðslu til íslenska ríkisins sem að mati stjórnar var hófleg.

Forstjóri RARIK, Magnús Þór Ásmundsson, fór yfir þær umbreytingar sem átt hafa sér stað hjá RARIK undanfarið ár.
Forstjóri RARIK, Magnús Þór Ásmundsson, fór yfir þær umbreytingar sem átt hafa sér stað hjá RARIK undanfarið ár.

Fyrsta ári umbreytinga lokið

Forstjóri RARIK, Magnús Þór Ásmundsson, fór yfir þær umbreytingar sem átt hafa sér stað hjá RARIK undanfarið ár en að einungis væri um að ræða fyrsta umbreytingaárið af mörgum fram undan. Markmiðið með skipulagsbreytingunum sagði Magnús að hefði verið að sinna kröfum viðskiptavina um örugga orkuafhendingu og taka forystu um nýtt hlutverk RARIK sem öflugt þekkingar- og þjónustufyrirtæki sem gæti mætt þörfum framtíðarinnar um aukinn sveigjanleika og gagnkvæm orkuviðskipti.

 

Magnús talaði einnig um gildi og meginmarkmið RARIK og hvernig fyrirtækinu hefði gengið að fylgja þeim. Meðal annars kom fram að góður árangur hefði náðst með markmið RARIK um minnkaða kolefnislosun árið 2023 en um leið var settur fyrirvari um að erfitt myndi reyna að fylgja þeim árangri eftir árið 2024 vegna skorts á skerðanlegri raforku til fjarvarmaveita.

 

Góður árangur náðist einnig varðandi afhendingaröryggi en truflunum í dreifikerfi hafði fækkað sem og tilfellum rafmagnsleysis. Þetta þakkaði Magnús aukinni jarðstrengsvæðingu en tæplega 78% allra strengja RARIK eru nú komnir í jörð.

Raforkuöryggi rauði þráðurinn

Segja má að rauði þráðurinn í skýrslu stjórnar og forstjóra hafi snúist um raforkuöryggi en mikil umræða um raforkuöryggi fór af stað í lok síðasta árs þegar umdeilt neyðarfrumvarp var lagt inn í atvinnuveganefnd. Magnús sagði RARIK hafa haldið sig til hlés í opinberri umræðu hingað til en komið sínum sjónarmiðum um þetta og fleiri frumvörp á framfæri við atvinnuveganefnd sem og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Hann sagði skilaboð RARIK einföld: „Áður en nokkru öðru er breytt í regluverki raforkumála, þarf að setja belti og axlabönd á almenning, þ.e. heimili, minni fyrirtæki og samfélagslega mikilvægir innviðir.“ Hann sagði viljayfirlýsingu um að verja almenning ekki duga heldur þyrfti að útfæra með hvaða hætti það ætti að gera og það sem fyrst.

 

Magnús benti einnig á galla í núgildandi raforkulögum hvað varðar stórnotendaskilgreininguna og sagði núverandi skilgreiningu fela í sér óeðlilegan hvata fyrir „litla stórnotendur“ til að sóa orku. Í orkuskorti, sem segja má að þegar sé hafinn, ætti að leita leiða til að draga úr notkun eins og hægt er. Stórnotendaviðmið eru nú 80 GWst á ári en til samanburðar þá þarf meðalálver á Íslandi u.þ.b. 4.000 GWst á ári. Með því að sóa orku og ná hinu lága lágmarki til að teljast stórnotandi geti litlir stórnotendur sparað sér u.þ.b. 100 milljónir króna á ári í flutningsgjöld þrátt fyrir að þurfa í raun mun minni orku en notkun þeirra gefur til kynna. Þar sem flutningsgjöld eru hluti af heildarkjörum á raforkumarkaði skiptir þetta miklu máli og gæta þarf þess að ekki sé þar innbyggður hvati til sóunar.

Góðar horfur fyrir 2024

RARIK gerir ráð fyrir tekjuaukningu hjá samstæðunni árið 2024 og er það fyrst og fremst vegna aukinnar notkunar en einnig vegna hækkana á verðskrám. RARIK er nú að stíga inn í sitt fyrsta heila rekstrarár eftir skipulagsbreytingar og segir Magnús að gera megi ráð fyrir tímabundnum kostnaðarauka meðan verið er að gera breytingar, byggja upp innri kerfi og bregðast við þörf á nýrri þekkingu og vinnuskipulagi. Gert er ráð fyrir að EBITDA RARIK samstæðunnar verði 31% og að fjárfest verði fyrir um 7,9 milljarða árið 2024.

Sækja skjalÁrsskýrsla RARIK ohf 2023

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik
Við notum vafrakökur til að bæta upplifun þína á vefnum. Með því að halda áfram að vafra um þessa síðu samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum. Smelltu hér fyrir neðan til að fá frekari upplýsingar.
Stillingar