Fyrr í sumar óskuðum við eftir því að Verkís greindi raunhæfar leiðir til að tryggja nauðsynlega afhendingargetu raforku á NA-landi. Föstudaginn 10. október s.l. voru niðurstöðurnar kynntar í húsakynnum Rarik í Reykjavík. Auk fulltrúa okkar buðum við sveitarstjóra Langanesbyggðar, fulltrúum frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi Eystra, fulltrúum frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og fulltrúum Landsnets að sitja kynninguna.
Um tildrög þess að óskað var eftir greiningunni segir Kristín Soffía Jónsdóttir framkvæmdastjóri þróunar og framtíðar hjá Rarik að um langa hríð hafi verið ljóst að núverandi afhendingargeta á svæðinu er að mestu uppurin. „Þetta setur verulega skorður á orkuskipti, atvinnuuppbyggingu og búsetuþróun. Meðal annars eru nú þegar takmarkanir fyrir hendi vegna fyrirhugaðrar stækkunar hjá fyrirtækjum á svæðinu og ómögulegt rafvæða t.a.m. fiskimjölsverksmiðjur án öflugri tenginga. Á svæðinu eru spennandi tækifæri í orkuöflun sem erfitt verður að taka við með núverandi innviðum. Þá eru ótalin þau tækifæri sem kunna að glatast vegna þess að fyrirtæki geta ekki horft til svæðisins vegna skorts á afhendingargetu.“
Sem stendur er Þórshöfn tengd með 33 kV streng frá aðveitustöð á Kópaskeri, um 50 km leið. Í skýrslu Verkís kemur fram að til þess að tryggja framtíðaruppbyggingu, atvinnuþróun og orkuöryggi á svæðinu sé eini raunhæfi valkosturinn sá að leggja 132 kV flutningslínu jafnvel þótt sú lína yrði fyrst um sinn rekin á 66 kV. Slík lína getur borið nægjanlegt afl og myndi samræmast markmiðum og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku þar sem fram kemur að „allir afhendingarstaðir í svæðisbundnum hlutum flutningskerfisins skulu árið 2040 vera komnir með tengingu sem tryggi að rof á stakri einingu valdi ekki takmörkunum á afhendingu eða afhendingarrofi.“
Aðrir valkostir sem Verkís skoðaði, eins og 66 kV jarðstrengslausn, myndu ekki leysa framtíðaráskoranir svæðisins.
Stjórn og framkvæmdastjórn Rarik heimsótti nýlega sveitarstjórn Þórshafnar til að ræða orkumál og mögulegar lausnir.
„Samstarf Rarik, Landsnets og stjórnvalda eru lykillinn að farsælli lausn,“ segir Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Rarik. „Fyrirtækið hefur átt samtal við Landsnet og stjórnvöld í tengslum við þetta verkefni og mun áfram vinna að lausn sem byggir á hagkvæmni, jafnræði og sanngjarnri kostnaðarskiptingu. Rarik leggur áherslu á að viðskiptavinir fyrirtækisins á NA-landi njóti sama aðgengis að áreiðanlegri orku eins og önnur heimili og fyrirtæki á landinu. Það er grundvöllur lífsgæða, verðmætasköpunar og áframhaldandi búsetu á svæðinu,“ bætir Magnús við.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttiir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi Eystra, sat fundinn og sagði m.a. „Hér er um að ræða tækifæri til að skapa verðmæti þar sem afleidd þjóðhagsleg arðsemi réttlætir fjárfestinguna. Skattspor íbúa og fyrirtækja í landshlutanum er með því hæsta á landinu. Þess vegna er nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina.“
„Allar fjárfestingar sem Rarik ræðst í lenda á viðskiptavinum okkar sem eru íbúar landsbyggðarinnar. Landsmenn allir greiða hins vegar fyrir fjárfestingar Landsnets í gegnum gjaldskrá Landsnets sem dreifiveitur rukka fyrir í gegnum sína gjaldskrá. Það væri að okkar mati réttlátara að allir landsmenn tækju þátt í að fjármagna svo stóra framkvæmd en ekki einungis viðskiptavinir Rarik,“ segir Magnús Þór.
Við munum vinna áfram með Landsneti og stjórnvöldum að því að hrinda í framkvæmd þeirri lausn sem þjónar framtíðarsýn svæðisins, stefnu stjórnvalda og hag íslensks samfélags í heild. Við getum hins vegar ekki réttlætt að viðskiptavinir okkar standi einir undir svo stórri fjárfestingu og teljum eðlilegt að skoðaðar séu fjármögnunarleiðir fyrir verkefni sem þetta. Líkja má svona framkvæmd við byggingu byggðalínunnar sem á sínum tíma var mikið átak en hefur hins vegar til langs tíma skilað þjóðinni hagsæld og verðmætum.
Starfsstöð Rarik á Þórshöfn.
Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-14