Frá og með 1. desember taka gildi breytingar á gjaldskrá okkar fyrir sölu á heitu vatni. Markmið breytinganna er að fylgja almennri verðlagsþróun og tryggja eðlilega endurheimt fjárfestinga ásamt því og stuðla að jafnræði viðskiptavina eftir því sem unnt er.
Við vinnum nú að því að fastagjald hitaveitu sé sambærilegt milli svæða, þannig að það endurspegli betur fastan kostnað við rekstur hitaveitna.
Ástæða þess að hækkanir á Blönduósi/Skagaströnd og í Dalabyggð, eru meiri en á Siglufirði eru miklar fjárfestingar í hitaveitukerfinu á Blönduósi/Skagaströnd á síðustu árum auk þess sem mikil fjárfesting er framundan í Dalabyggð.
Við leggjum áherslu á að nauðsynlegum fjárfestingum sé forgangsraðað til að tryggja rekstraröryggi, afhendingaröryggi og gæði þjónustu til framtíðar.
Framþróun á hitaveitum okkar er gríðarlega mikilvægt verkefni. Hitaveitur minnka þörf fyrir rafmagnskyndingu og spara þannig raforku, auk þess að vera mun hagkvæmari lausn en rafkynding. Það skiptir miklu máli að rekstur hitaveita sé góður og að sem minnstur varmi glatist við dreifingu. Dreifikerfi okkar fyrir heitt vatn er sums staðar komið til ára sinna og þarfnast endurbóta.
Í stefnumótun okkar höfum við lagt áherslu á að nýta nýjustu tækni, bæta skilvirkni og þróa orkuinnviði til að styðja byggðir og samfélög á dreifðum svæðum. Endurnýjun á eldri hitaveitum okkar er liður í þessu og einnig því stefnumarkmiði okkar um að umgangast náttúruna af virðingu og auka sjálfbærni í öllum okkar rekstri.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-14