Við elskum þegar jólaljósin byrja að skína um allt land og jólaseríurnar gera myrkrið aðeins minna myrkt. Eins og með allt sem tengist rafmagni er gott að hafa öryggið í huga svo aðventan verði bæði björt og áhyggjulaus.
Áður en við kveikjum á fyrstu perunni er gott að taka rólega yfirferð yfir seríufjársjóð heimilisins. Skoðaðu snúrurnar vel, athugaðu hvort perur eru sprungnar og hvort snúrur og tenglar eru farin að láta á sjá. Sería sem er skemmd eða farin að trosna á ekki heima uppi í tré … hún á heima í ruslinu. Betra er að skipta henni út strax frekar en taka áhættuna.
Það borgar sig að byrja á grunninum og velja vandaðar og öruggar seríur. CE-merkið er hér góð vísbending, og það skiptir líka máli að nota rétta seríu á réttum stað – útiseríur úti og inniseríur inni. Seríur sem eiga að hanga úti í íslenskri vetrarveðráttu þurfa að þola bæði bleytu og frost. IP44 ryk- og rakavörn er lágmarkið fyrir góðar útiseríur.
Innstungur eiga líka sinn þátt í jólaballinu. Þær þola bara ákveðið mikið álag í einu og því mikilvægt að við troðum ekki öllum seríum (eða öðrum raftækjum) á sömu innstunguna. Fjöltengi með yfirálagsvörn eru góður félagi þegar kemur að jólaljósaskreytingunum en vert er að minna á að fjöltengi eru ekki eilíf heldur þarf að endurnýja þau reglulega. Utandyra þarf ryk- og rakavörn á innstungum og/eða fjöltengjum að vera sú sama og fyrir seríurnar sjálfar, þ.e. IP44 eða hærra. Rétt innstunga eða vatnsþétt tengibox eru lykillinn að góðri útiljósaskreytingu.

Sumir halda því fram að Helga Möller syngi „eldvarnarhátíðin mest“ í laginu Aðfangadagskvöld og það er kannski ekki versti misskilningur í heimi. Við ættum að tryggja með ráðum og dáð að fallegu jólaskreytingarnar kveiki ekki í hjá okkur. Jólaseríur eiga t.d. ekki að liggja upp við eldfim efni eins og gardínur eða þurrt greni, og það er yfirleitt betra að sleppa því að hafa þær logandi yfir nótt eða þegar enginn er heima. Þau okkar sem eiga það til að gleyma, hvort sem er að slökkva eða kveikja á seríunum gætu fengið sér tímastillt tengi eða jafnvel snjallstýrt. Þannig sparast bæði orka og fyrirhöfn.
Talandi um orku – það er alveg hægt að njóta jólaljósa án þess að snúast í hringi yfir rafmagnsreikningnum. LED-seríur spara töluvert meira en eldri gerðir og hitna líka minna, sem bætir öryggi til muna. Það er sniðugt að hafa aðeins kveikt á ljósum þegar einhver er nálægt til að njóta þeirra. Jólin verða víst ekki bjartari við það að jólaseríur lýsi upp tómt hús.
Með þessum ráðum ætti allt að ganga upp varðandi jólaskreytingarnar. Ef ljósin slökkna og engin ástæða finnst er ráð að athuga hvort rof hafi verið skráð á tilkynningasíðu okkar. Það getur komið í veg fyrir að þú eyðir kvöldinu í að velta fyrir þér hvort serían sé biluð… eða bara mjög dimmt úti.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-14