ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Rafmagnstruflanir í desember og afleiðingar þeirra

Mikið óveður gekk yfir landið 10.-11. desember síðastliðinn og voru afleiðingar þess miklar, sérstaklega á Norðurlandi. Veðrið olli umtalsverðu tjóni á línukerfum RARIK og Landsnets og hafði víðtækar rafmagnstruflanir í för með sér.

Kerfi RARIK er nokkuð laskað eftir þennan mikla hvell og þolir líklega minna en ella á næstunni. Þá hefur verið glímt við truflanir vegna seltu á öllu línukerfinu eftir veðrið og um helgina var ísingarveður sem olli nokkrum viðbótar truflunum.

 

Vegna þessara erfiðu veðuraðstæðna varð rafmagnsleysi víða á Norðurlandi, en einnig á Vestur-, Suður- og Austurlandi.

 

  • Í Húnavatnssýslum varð mest straumleysi vegna ísingar og seltu í aðveitustöð byggðalínu í Hrútatungu, en einnig urðu bilanir í dreifikerfi RARIK. Talsvert var um staurabrot, línuslit og seltu á Hrútafjarðarlínu, Heggstaðanesi, Vatnsnesi og í Vestur-Hópi. Einnig urðu truflanir í Svartárdal, Blöndudal og í Svínadal.
  • Í Skagafirði fór lína Landsnets til Sauðárkróks út og þar með varð Sauðárkrókur straumlaus. Varaaflsvélar voru keyrðar þar, en Gönguskarðsárvirkjun sem er í bænum bilaði og gat þar af leiðandi ekki komið til aðstoðar og því varð skömmtun meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Bilun í Glaumbæjarlínu olli talsverðu straumleysi og sömuleiðis fóru illa línurnar út á Skaga og á Reykjaströnd.
  • Í Eyjafirði varð mjög víðtækt straumleysi þegar Dalvík, Ólafsfjörður og Siglufjörður urðu straumlaus vegna bilunar á Dalvíkurlínu Landsnets og vegna truflana í Skeiðsfossvirkjun. Þá bilaði Ólafsfjarðarlína einnig. Auk nokkurra varaaflsvéla RARIK sem fluttar voru á staðinn tókst að tengja varðskipið Þór við Dalvík, sem gerði kleyft að anna að mestu rafmagnsframleiðslu fyrir Dalvík og Svarfaðardal. Eftir að viðgerð lauk á Skeiðsfossvirkjun sá hún Siglufirði og Ólafsfirði fyrir rafmagni. Þá biluðu línur RARIK í Svarfaðardal einnig , 33 kV línan milli Dalvíkur og Árskógssands og línur í Hörgárdal, Ólafsfirði og á Svalbarðsströnd.
  • Í Þingeyjarsýslum olli bilun á línu Landsnets frá Laxá til Kópaskers miklu straumleysi, en varaaflsvélar voru settar upp í Lindarbrekku, á Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn og á Bakkafirði. Þá urðu bilanir í Fnjóskadal, Bárðardal, Aðaldal og Reykjahverfi auk þess sem talsvert brotnaði af staurum á Tjörnesi, í Öxarfirði, á Melrakkasléttu og í Þistilfirði.
  • Auk nokkurra bilana í dreifikerfinu á Vesturlandi urðu ítrekaðar truflanir í Dalasýslu þegar aðveitustöð í Hrútatungu leysti út og straumur fór af Dölunum. Til að koma rafmagni aftur á þurfti að byggja kerfið upp eftir varaleiðum þar á meðal með varaafli.
  • Truflun í flutningskerfinu olli straumleysi á öllu Austurlandi og einnig varð truflun í tengibúnaði í aðveitustöð á Hólum.
  • Á Suðurlandi urðu tvær rafmagnstruflanir, en búist hafði verið við alvarlegum truflunum á austanverðu Suðurlandi við undirbúning fyrir þetta veður.

 

Veðrið sem gekk yfir landið var fádæma slæmt. Veðurspáin gerði ráð fyrir aftakaveðri um allt land með ísingu og í ljósi þess hóf RARIK formlegan undirbúning strax mánudaginn 9. des. Farið var yfir efni, verkfæri, búnað, bíla, rætt við verktaka, o.s.frv. Hugað var að staðsetningu færanlegra varaaflsvéla fyrirtækisins og þær staðsettar þar sem talið var að þeirra yrði mest þörf. Efni var flutt frá stærstu birgðastöðvum okkar á Hvolsvelli og Akureyri til annarra birgðastöðva. Varaaflsstöðvar voru mannaðar og mannskap dreift í ljósi nákvæmari veðurspár og að fengnum ráðleggingum veðurfræðinga. Á þessum tíma var búist við að veðrið myndi ganga yfir allt landið.

 

Að morgni 10. des. var Neyðarstjórn RARIK kölluð saman og viðbúnaður fyrirtækisins settur á hæsta stig. Þegar leið á atburðarásina og ljóst var að veðrið myndi að mestu einskorðast við Norðurland var byrjað að undirbúa flutning viðgerðarhópa af Austurlandi, Suðurlandi og Vesturlandi. Einnig var meira efni og fleiri varaaflsstöðvar flutt norður. Þar naut RARIK aðstoðar fjölmargra, m.a. annarra veitufyrirtækja sem lögðu tilvaraaflvélar og mannskap.

 

Gríðarlega vinnu hefur þurft að inna af hendi til að gera við kerfið og munu um 300 manns hafi unnið beint og óbeint að viðgerðum á línum og við keyrslu varaaflsstöðva. Fjölmargir starfsmenn RARIK stóðu vaktina í marga sólarhringa, en að auki naut fyrirtækið aðstoðar hátt í tvö hundruð manna frá öðrum veitufyrirtækjum, verktökum og einstaklingum en einnig Landhelgisgæslunni sem lánaði varðskipið Þór og eru þá ótaldar björgunarsveitirnar sem alltaf vinna ómetanlegt starf. Öllu þessu fólki þökkum við aðstoðina og viðskiptavinum okkar sem urðu fyrir rafmagnleysi í kjölfar óveðursins þökkum við þolinmæði og þrautseigju við þessar erfiðu aðstæður.

 

Að morgni 23. desember fór RARIK af hæsta viðbúnaðarstigi og er fyrirtækið nú komið í hefðbundinn rekstur ef svo má að orði komast. Neyðarstjórn RARIK og aðgerðastjórn á Norðurlandi hafa lokið störfum í bili. Framundan er mikil vinna við að klára endanlegar viðgerðir auk margvíslegrar úrvinnslu. Farið verður vel yfir hvað gekk vel og hvað hefði mátt betur fara.

 

Veðurspáin er batnandi og er það von okkar að viðskiptavinir RARIK geti farið inn í jól og áramót með nægt rafmagn og eigi gleðileg friðarjól.

Truflanir í dreifikerfi RARIK á Norðurlandi
Myndin sýnir bilanir í dreifikerfi RARIK á Norðurlandi vegna óveðursins en víðtækar bilanir urðu einnig í öðrum landshlutum. Mun fleiri urðu fyrir truflunum vegna bilana í kerfi Landsnets.
Starfsmenn RARIK takast á við afleiðingar ofsaveðurs.
Starfsmenn RARIK takast á við afleiðingar ofsaveðurs.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

SKIPTIBORÐ

Sími: 528 9000
Fax: 528 9009
Opið:
Mán-fim 8-16 og fös 8-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Bilanir Vesturlandi: 528 9390
Bilanir Norðurlandi.: 528 9690
Bilanir Austurlandi: 528 9790
Bilanir Suðurlandi: 528 9890
Rarik