ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Af framkvæmdum RARIK á árinu 2023

Árið hefur verið spennandi og viðburðaríkt framkvæmdaár hjá RARIK. Fjöldi hefðbundinna verkefna var í gangi eins og venjulega en í ár hefur enn fremur verið lögð áhersla á orkuskipti í samgöngum sem munu hafa aukin áhrif á framkvæmdir og starfsemi RARIK á komandi árum.  

Árið 2023 hefur verið viðburðaríkt framkvæmdaár.
Árið 2023 hefur verið viðburðaríkt framkvæmdaár.

Á hverju ári er unnið í fjölbreyttum framkvæmdaverkefnum og þau skiptast almennt í verkefni við aðveitustöðvar, jarðstrengjavinnu samkvæmt áætlun RARIK um endurnýjun kerfisins, flýtiverkefni jarðstrengjavæðingar og loks notendadrifna jarðstrengjavæðingu. Á vef RARIK er að finna kortasjá sem sýnir helstu fyrirséðu framkvæmdaverk hvers árs.

 

Árið reyndist RARIK nokkuð krefjandi til framkvæmda þar sem efnisskortur hefur verið viðvarandi síðan heimsfaraldur COVID reið yfir. Afhendingartímar á efni eru því langir og hefur það haft áhrif á framvindu verkefna en eins urðu miklar tafir á strengvæðingu við endurnýjun á dreifikerfinu vegna kæru í tengslum við  verðfyrirspurnarferli RARIK við val á jarðverktökum. Vegna þessa þurfti að fresta nokkrum verkefnum til ársins 2024 þar sem ekki tókst að ljúka þeim öllum sem farið var í gang með. Góð tíð í sumar og haust hjálpaði þó mikið og nú hefur um 77% af dreifikerfinu verið sett í jörð. 

 

Verkefni ársins hafa verið fjölmörg en við verkefni á áætlun bætast ófyrirséðar framkvæmdir til dæmis vegna heimtaugatengingar að beiðni viðskiptavina.

 

Þótt komið hafi óveður á árinu, hefur RARIK upplifað árið frekar rólegt hvað veðurfar snertir og ekki var mikið um stórar bilanir í dreifikerfi RARIK vegna veðurs. 

 

Aðrar orsakir en veður hafa áhrif á rekstur dreifikerfisins


Stundum verða bilanir á strengjum í miðju óveðri og gerðist það t.d. við Gufuskála 7. febrúar sl. Þann 30. október varð alvarleg bilun af tæknilegum orsökum í aflspenni RARIK á Þórshöfn. Skipta þurfti um spenni og var það stór og tímafrek aðgerð sem tókst þó mjög vel. Allir voru komnir með rafmagn eftir um 13 klst. Þann 10. nóvember varð útleysing í Ljósafossi og allt Grímsnesið og Laugarvatn urðu rafmagnslaus. Langan tíma tók að einangra bilun og síðustu viðskiptavinir fengu ekki rafmagnið aftur fyrr en eftir 11 klst. Kom þetta því miður illa við m.a. Grindvíkinga sem voru nýbúnir að yfirgefa heimili sín og leita skjóls í sumarbústöðum á svæðinu. Nokkrar truflanir hjá Landsneti ollu rafmagnsleysi á stærra svæði hjá RARIK m.a. á Suðurlandi frá Rimakoti vegna bilunar í Vestmannaeyjarstrengnum 30. janúar, á Norðurlandi frá Rangárvöllum og á Tröllaskaga 25. maí og á Austurlandi voru tvær útleysingar báðar út frá Eyvindará, önnur 16. júní og hin í ísingarverði 6. nóvember. 

 

Þá var einnig mikið um aðgerðir í tengslum við viðhaldsmál og útskipti á búnaði sem hafði nokkuð straumleysi í för með sér meðan á því stóð. Gott viðhald og endurnýjun á búnaði skilar sér svo í sterkara dreifikerfi og færri truflunum í framtíðinni. Mikið samstarf var við Landsnet í ýmsum verkefnum og má m.a. nefna aðgerðir vegna bilana á jarðstreng til Vestmannaeyja.

 

Sífelld vinna í afhendingaröryggi


Miðlæg stjórnstöð tók til starfa hjá RARIK í janúar á þessu ári. Hún hefur tekið við verkefnum sem fjórar svæðisvaktir höfðu áður við að vakta dreifikerfi RARIK, skipuleggja rafmagnsleysi í tengslum við nauðsynlega vinnu í kerfinu og bregðast við truflunum. Þetta er mikilvægur áfangi sem eykur áherslur á þessa málaflokka og gerir fyrirtækinu kleift að bregðast enn betur við atburðum sem verða í kerfinu, tryggja betur öryggi starfsfólks og bæta upplýsingaflæði til viðskiptavina í tengslum við rafmagnsleysi m.a. með upplýsingum á vef, útsendingu á SMS og umfjöllun um mikilvæga atburði á Facebook síðu RARIK. Framkvæmdatímabilið hjá RARIK er oft stutt vegna vetrartíðar, sem leiðir til þess að RARIK þarf að koma miklu í verk frá apríl/maí og fram í september/október. Það er þó nóg af verkefnum allan ársins hring og þegar ekki er unnið í framkvæmdaverkum þá eru rekstrar- og viðhaldsverkefnin ærin. 

 

Eitt af þeim verkefnum sem gott er að vinna að vetri til er línurif en það er þegar loftlínur eru fjarlægðar þar sem jarðstrengir eru lagðir í stað gömlu línanna. Jarðstrengsvæðing er ekki eina verkefnið sem bætir afhendingaröryggi RARIK. Nefna má lítið verkefni sem hefur bætt afhendingaröryggið RARIK á Stokkseyri, en þar voru fuglafælur settar á línuna til að draga úr truflunum vegna áflugs fugla. Sú aðgerð skilaði góðum árangri. Einnig skiptir máli að fá hringtengingar í jarðstrengskerfinu til að stytta tímann sem viðskiptavinir eru rafmagnslausir og var t.d. sett upp slík tenging um Votmúlaveg sunnan við Selfoss sem eykur mjög afhendingaröryggi á svæðinu. RARIK vinnur ýmis verkefni tengd orkuskiptum í samgöngum og er liður í því t.d. að styrkja sumarbústaðarhverfi. Dæmi um slíkt verkefni sem hófst á árinu er styrking á sumarbústaðabyggðinni Veiðilundi við Þingvallavatn. Fjöldi slíkra verkefna er á dagskrá í framtíðinni.  

 

Fjölbreytt notendadrifin verk víða um land

 

Á kortasjá á vef RARIK er að finna yfirlit yfir framkvæmdir fyrirtækisins á árinu. Þau verkefni sem voru á áætlun eru sýnd með ljósbláum punktum og  nokkur notendadrifin verkefni eru sýnd með dökkbláum punktum. Notendadrifin verk koma til af frumkvæði viðskiptavina og eru kostuð af þeim að hluta eða öllu leyti og hafa verið mjög fjölbreytt í ár.    

 

Helstu framkvæmdaverk ársins eftir landshlutum:

 

Á Vesturlandi voru sjö jarðstrengsverkefni vegna endurnýjunar dreifikerfisins, tvö í Dalabyggð, eitt í Borgarbyggð, tvö í Hvalfjarðarveit, eitt í Kjósarhreppi og eitt á Snæfellsnesi og voru lagðir samtals um 80 km í streng. Einu verki er að fullu lokið þ.e. tenging notenda við spennistöðvar, og á það einnig við um tvö verk í Dalabyggð og Borgarbyggð frá fyrra ári. Verkin fóru seinna af stað en áætlað var vegna tafa í kjölfar kærumáls útboðsferils þannig að verktíminn teygðist inn í byrjun vetrar og í aðstæður sem hömluðu jarðvinnu sem þýðir að verklok færast yfir á nýtt ár.

 

Á Norðurlandi var RARIK með níu jarðstrengsverkefni með samtals 123 km af strengjum. Þar af er sjö verkefnum þegar lokið: Í Hrútafirði, Miðfirði, Fitjárdal, Árskógs- og Galmaströnd, Bárðardal, Útkinn og Kelduhverfi. Verkefnum í austanverðum Svínadal (33 km) og frá Laxárvatni að Blönduósi (8 km) er ekki lokið. Í Svínadal er ólokið um 8 km lögn sem frestast fram á næsta vor og þverun yfir Blöndu er ólokið fyrir lögnina frá Laxárvatni. Á árinu var einnig lokið við tengingar í verkefnum frá árinu 2022 í Hjaltadal og í Langa- og Svartárdal.

 

Skipt var um spenni í nýrri aðveitustöð á Skagaströnd í byrjun árs. Lokið var byggingu yfir spenni í stöðinni í Varmahlíð og spennir sem áður var á Sauðárkróki var fluttur í stöðina. Í sumar hófst vinna við byggingahluta sem áður hýsti varaafl á Laxárvatni og var honum breytt í rofasal fyrir tvo spenna. Ætlunin er að þar verði settir upp tveir spennar á næsta ári til að mæta auknu álagi en einnig á að endurnýja og stækka núverandi spenni í tengivirkinu á Laxárvatni. Á árinu hófst lögn 33 kV strengs frá Laxárvatni að Skagaströnd. Í ár var strengurinn lagður að Blöndu, samhliða nýjum stofnstreng fyrir Blönduós. Ætlunin er að ljúka strenglögninni á næsta ári. Þá lauk byggingu aðveitustöðvar á Kópaskeri og var þar einnig skipt um spenni og hann stækkaður. Byggingu spennarýmis á Vopnafirði lauk einnig, en þar eru fyrirhuguð spennaskipti á næsta ári. 

 

Til að tryggja aukna orku fyrir Hitaveitu Blönduóss og Skagastrandar voru á árinu boraðar fimm hitastigulsholur (borholur í leit að jarðhita) um 500 m að dýpt í og við vinnslusvæði veitunnar að Reykjum. Að fengni mati ÍSOR, sem er ráðgjafi RARIK á sviði jarðfræði, var ákveðið að bora 1.200 m vinnsluholu á svæðinu. Samið var við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. (Ræktó) um þá borun og hófst hún í nóvember og reiknað er með að borun ljúki í byrjun næsta árs.

 

Á Austurlandi  voru fyrirliggjandi tvö jarðstrengsverkefni á árinu, bæði í Berufirði. Annars vegar 14 km strengvæðing 33 kV línu ásamt 11 kV dreifilínu frá Núpi að landtaki í landi Fagrahvamms og hins vegar 10 km strengvæðing 11 kV dreifilínu frá Fagrahvammi að Kelduskógum. Þar sem leyfismál töfðu upphaf framkvæmda þá náðist einungis að klára 2/3 af fyrra verkinu áður en aðstæður voru orðnar þannig að það þurfti að stöðva verkin. Framkvæmdir hefjast að nýju á árinu 2024 um leið og tíð leyfir. Farið var í ýmis minni strengvæðingarverkefni, alls um 10 km. Lokið var við tengingar á jarðspennistöðvum fyrir bæi á Búlandsnesi og Hamarsfirði. Þetta voru verkefni frá fyrra ári sem ekki náðist að ljúka vegna vöntunar á efni. Dreifikerfi í þéttbýli voru styrkt vegna aukinna umsvifa hjá einstaklingum og fyrirtækjum auk þess sem hleðslustöðvum fyrir rafbíla var fjölgað.

 

Á Austurlandi lauk í ár tveimur samstarfverkefnum RARIK og Orkufjarskipta. Annars vegar var um að ræða lögn frá aðveitustöðinni á Hólum við Höfn í gegnum Almannaskarðsgöng  og hins vegar 32 km strenglögn yfir Skeiðarársand. Einnig var skipt um 11 kV rofa í stöðinni á Hólum. Á Stöð í Stöðvarfirði var unnið að nýrri spennaþró ásamt lagfæringum á eldra húsi.


Á Suðurlandi var farið í tvö jarðstrengsverkefni annað í Fljótshlíð og hitt í Selsundi, samtals um 15 km. Fresta þurfti tveimur útboðsverkum vegna áðurnefnds kærumáls sem kom upp. Skipt var um rofabúnað í aðveitustöðinni á Selfossi. Til viðbótar við þessi verkefni hefur RARIK verið með mikið af notendadrifnum verkum á Suðurlandi enda mikil uppbygging í gangi þar.

 

Góður gangur hefur verið í verkefnum RARIK víða um land á þessu ári þrátt fyrir ýmsar ófyrirséðar tafir og má vænta þess að með hverju verkefni aukist afhendingaröryggi rafmagns eftir því sem veðurþol kerfisins batnar. Þá er fjöldi verkefna um allt land tengdur uppgangi í atvinnulífinu og orkuskiptum í samgöngum. Við horfum því björt fram á veginn í þeim verkefnum sem fyrir liggja á árinu 2024 í þágu viðskiptavina RARIK.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik
Við notum vafrakökur til að bæta upplifun þína á vefnum. Með því að halda áfram að vafra um þessa síðu samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum. Smelltu hér fyrir neðan til að fá frekari upplýsingar.
Stillingar