ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Spurt og svarað um rafmagnsreikninginn og gjaldskrá

Hér höfum við tekið saman algengar spurningar og svör sem varða rafmagnsreikninginn og gjaldskrá fyrir dreifingu og flutning raforku.

 

Markmiðið er að veita skýrar og gagnlegar upplýsingar svo viðskiptavinir okkar geti auðveldlega áttað sig á því hvernig rafmagnsreikningurinn er uppbyggður, hvaða gjöld liggja að baki honum og af hverju þau geta verið mismunandi.

 

Þú finnur hér svör við spurningum um allt frá grunnuppbyggingu rafmagnsreikningsins, muninn á gjaldskrá fyrir dreifbýli og þéttbýli og niðurgreiðslur vegna húshitunar, til sértækra mála sem varða fyrirtæki, eins og afltaxta, aflgjöld og skerðanlega orkudreifingu.

 

Ef þú finnur ekki svarið sem þú leitar að getur þú haft samband við þjónustuver Rarik – við erum ávallt tilbúin að aðstoða.

Hvernig er rafmagnsreikningurinn uppbyggður?

Rafmagnsreikningur til heimila skiptist í þrjá hluta:

  1. Dreifing:
    Rarik sér um dreifingu raforku frá Landsneti til heimila og fyrirtækja.
    Gjaldskrá er mismunandi fyrir þéttbýli og dreifbýli.
    Rafmagn til húshitunar ber 11% VSK og er niðurgreitt af Umhverfis- og orkustofnun. 
    Viðskiptavinir þurfa sjálfir að sækja um niðurgreiðslu á vef Umhverfis- og orkustofnunar.
  2. Flutningur:
    Landsnet sér um flutning raforku en Rarik innheimtir gjöldin vegna flutningsins og skilar þeim til Landsnets.
  3. Jöfnunargjald, dreifbýlisframlag og niðurgreiðslur:
    Jöfnunargjald rennur til ríkisins og er notað til að jafna kostnað við dreifingu raforku á milli landshluta. Dreifbýlisframlag er mótframlag til þeirra sem búa á landsbyggðinni.  

Af hverju fæ ég tvo reikninga fyrir rafmagnið?

  • Annar reikningurinn er fyrir dreifingu og flutning rafmagns. Hann kemur frá Rarik sem sér um að dreifa rafmagni á sínu veitusvæði, en að auki innheimtir Rarik gjöld vegna flutnings sem skila sér til Landsnets.
  • Hinn reikningurinn er fyrir raforkuna sjálfa og kemur frá þeim raforkusöluaðila sem þú hefur valið að eiga í viðskiptum við.

Af hverju er gjaldskráin ólík í dreifbýli og þéttbýli?

Gjaldskrá rafmagnsdreifingar hjá Rarik er ólík í dreifbýli og þéttbýli vegna mismunandi kostnaðar við dreifingu rafmagns á þessum svæðum. Á móti kemur dreifbýlisframlag frá ríkinu sem er ætlað að draga úr muni á kostnaði í dreifbýli og þéttbýli. Hér eru helstu ástæður fyrir þessum mun:

  • Fjarlægðir og umfang dreifikerfis: Í dreifbýli eru lengri vegalengdir milli húsa og dreifikerfið nær yfir stærra landsvæði. Þetta veldur auknum kostnaði við að byggja og viðhalda dreifikerfinu í dreifbýli samanborið við þéttbýli, þar sem byggðin er þéttari og fleiri notendur deila kostnaðinum.
  • Notendafjöldi: Í þéttbýli eru fleiri notendur á sama svæði sem geta deilt kostnaði við rafmagnsdreifingu, sem leiðir til lægri dreifingargjalda á hvern notanda. Í dreifbýli eru færri notendur á stærra svæði, sem þýðir að hver notandi þarf að bera stærri hluta af dreifikostnaðinum.
  • Viðhald og nýframkvæmdir: Viðhald og nýframkvæmdir á dreifikerfinu geta verið flóknari og dýrari í dreifbýli 

Rarik þarf að taka tillit til þessara þátta við verðlagningu á rafmagnsdreifingu til að tryggja að kostnaður sé sanngjarn miðað við aðstæður á hverju svæði.


Reikningurinn minn er hærri en venjulega. Af hverju?

Ef þú ert með álestrarmæli er líklegasta skýringin er að þú hafir skilað inn álestri nýlega og fengið uppgjörsreikning. Þar er gerð upp notkun frá síðasta álestri. Ef notkun var meiri en áætlað hafði verið, er fyrsti reikningur þar á eftir hærri en vanalega. Í kjölfarið hækka reikningarnir þínir í samræmi við uppfærða áætlun. Ef þú ert með snjallmæli er um raunnotkun að ræða, en þá líklega eitthvað í notkun heimilisins sem útskýrir hærri reikning, til dæmis hleðsla á rafbíl, rafmagnspottur eða rafmagnsgufa.


Af hverju eru reikningarnir mismunandi milli mánaða?

  • Snjallmælir: Reikningar hjá viðskiptavinum með snjallmæla byggja á raunnotkun. Notkun er oft meiri að vetri til. Ef ekki er hægt að útskýra aukna raunnotkun með árstíðasveiflum eða að stór rafmagnstæki hafi verið tekin í notkun er vert að athuga hvort raftæki á heimilinu geti verið komin á tíma.
  • Álestrarmælir: Kerfið áætlar notkun miðað við árstíðasveiflur.

Hvaða mælieiningar eru notaðar á reikningnum?

Rafmagn til heimila og minni fyrirtækja er mælt í kWh (kílóvattstundum) sem mælir hversu mikla orku heimilið notar. Að auki er fast gjald sem greitt er óháð orkunotkun heimilisins.


Hvernig er raforka til húshitunar mæld?

Flestir eru með einn rafmagnsmæli til húshitunar. Ef þú ert með einn rafmagnsmæli fyrir almenna notkun og húshitun, þá er áætlað að:

  • 85% af notkun heimilisins sé til húshitunar og beri 11% VSK.
  • 15% sé til almennra nota og beri 24% VSK.  

Ef viðskiptavinur er með tvo rafmagnsmæla, einn fyrir almenna notkun og annan fyrir húshitun er mikilvægt að passa upp á að allir rafmagnsofnar og tæki sem nýtt eru til húshitunar séu tengd við þann mæli sem mælir húshitun.


Hvernig virka niðurgreiðslur vegna húshitunar?

  • Gildir á köldum svæðum.
  • Heimilið þarf að vera með lögheimili á svæðinu.
  • Niðurgreiðslan kemur fram sem afsláttur á reikningi.

Viðskiptavinir sem eiga rétt á niðurgreiðslu vegna húshitunar þurfa að sækja um það sjálfir í gegnum vef Umhverfis- og orkustofnunar.


Hvað er straumgildi (A = Amper) og af hverju skiptir það máli?

Amper segir til um stærð heimtaugar, eða það afl sem þitt fyrirtæki hefur aðgang að. Í taxtaheiti er tilgreind aflstærð/varstærð fyrir þriggja fasa mæli. Orkutaxtar eru ekki heimilaðir fyrir heimtaugar sem taka meira afl en 500A.


Geta fyrirtæki valið á milli orkutaxta og afltaxta?

Já, viðskiptavinir Rarik geta í ákveðnum tilfellum valið á milli þess að vera á afltaxta eða orkutaxta, en þetta fer aðallega eftir því hversu mikið afl þeir þurfa fyrir sinn rekstur.

  • Orkutaxti: Hentar best fyrir minni notendur eins og heimili og lítil fyrirtæki, þar sem gjöldin miðast við raunverulega orkunotkun (í kílóvattstundum, kWh). Í þessum tilvikum borgar þú bara fyrir þá raforku í kWst sem þú notar.  Orkutaxtar eru ekki heimilaðir fyrir heimtaugar sem taka meira afl en 500A.
  • Afltaxti: Er aðallega ætlaður stærri notendum eins og fyrirtækjum sem þurfa stöðugan aðgang að miklu afli. Notendur á afltaxta borga fyrir það afl sem rafdreifikerfið þarf að vera tilbúið að veita, óháð raunverulegri orkunotkun. Þetta gerir okkur kleift að halda kerfinu stöðugu og tryggja að það geti mætt eftirspurn, sérstaklega við afl-topp notkun.

Venjulega er val á milli afltaxta og orkutaxta háð eðli orkunotkunar. Fyrirtæki með mikla og óreglulega notkun velja oft afltaxta, á meðan heimili og minni fyrirtæki eru yfirleitt á orkutaxta​. Afltaxti er skylda ef heimtaug er stærri en 500 Amper.  


Hvað er aflgjald?

Aflgjald í gjaldskrá Rarik vísar til gjalds sem er lagt á viðskiptavini á afltöxtum, en þá er greitt sérstaklega fyrir aflnotkun (kW) til viðbótar við raforkunotkun (kWst) og fastagjald. Viðskiptavinir á afltaxta greiða þannig fyrir það afl  (kW) sem rafmagnsdreifikerfið þarf að vera tilbúið að veita, óháð raforkunotkun í kWst. Aflið er mælt í kílóvöttum (kW) og er ætlað að endurspegla þann kostnað sem fylgir því að viðhalda raforkudreifikerfinu með nægilegu afli til að mæta hámarksnotkun.

 

Nánar um aflgjald

  • Í hverjum almanaksmánuði er reiknaður út, svokallaður mánaðartoppur, þ.e hæsta gildi 60 mínútna meðaltoppar innan hvers mánaðar.
  • Sölutoppur ársins reiknast síðan sem meðaltal fjögurra hæstu mánaðartoppanna
  • Hækki sölutoppurinn yfir árið, þá er hækkunin gerð upp sérstaklega á hverjum reikningi frá ársbyrjun. Nánari útskýringar má sjá í gjaldskrá Rarik fyrir dreifingu of flutning raforku.

Hvernig virkar skerðanleg orkudreifing?

  • Skerðanleg orkudreifing krefst sérsamninga og er afhent með þeim fyrirvara að Rarik og/eða Landsnet geti takmarkað eða skert dreifingu raforku til viðkomandi viðskiptavinar ef álag á kerfið er of mikið eða ef aðstæður gera slíkt nauðsynlegt. Samningar um skerðanlega orkudreifingu eru háðir samþykki Landsnets.  

     

  • Skerðanleg orkudreifing hentar fyrir notendur sem geta farið í aðra orkugjafa, eiga auðvelt með að hætta orkunotkun með skömmum fyrirvara og/eða þurfa ekki alltaf fulla orkuafhendingu.

     

  • Skerðanleg orkudreifing er þannig ódýrari en venjuleg forgangsorka, en fylgir þeirri takmörkun að Rarik og Landsnet hafa rétt á að skerða afhendingu við ákveðnar aðstæður.


Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

Rarik ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

Þjónustuver

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-14

Bilanavakt allan sólarhringinn

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik