ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Við viljum vera framsækið tæknifyrirtæki

Í Viðskiptamogganum þann 11. október sl. var birt viðtal Þórodds Bjarnasonar við Magnús Þór Ásmundsson forstjóra RARIK, þar sem hann ræddi um nýja tíma eru gengnir í garð hjá RARIK, stærstu rafmagnsdreifiveitu landsins. Í nýju skipulagi sem tekið hefur gildi er horft fram á við í takt við breytt hlutverk fyrirtækisins. Þar eru orkuskiptin í brennidepli. Með góðfúslegu leyfi Viðskiptamoggans birtum við hér viðtalið í heild sinni.

Mynd af opnuviðtalinu

Opnuviðtal Viðskiptamoggans (pdf)

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri RARIK ohf., hefur leitt stefnubreytingu félagsins síðan hann tók við keflinu fyrir rúmu einu ári. Magnús er ekki ókunnugur rafmagni í störfum sínum. Til dæmis stýrði hann um árabil stærsta raforkunotanda landsins, Alcoa á Reyðarfirði.

 

„Ég hef mikinn áhuga á orkumálunum enda er ég menntaður rafmagnsverkfræðingur og hef verið tengdur orkugeiranum í mínum störfum hingað til. Ég varð strax mjög spenntur fyrir því tækifæri að taka við sem forstjóri RARIK. Það er gaman að koma inn í fyrirtæki á breytingatíma og vinna að mikilvægum verkefnum. RARIK hefur verið vel rekið fyrirtæki og er á góðum stað en nú eru miklar breytingar í starfsumhverfinu og við höfum unnið í skipulagsbreytingum frá því í lok síðasta árs. Við fórum í stefnumótun og þar kom fram hvaða umbætur þyrfti að gera til að fyrirtækið gæti verið sem best í stakk búið til að mæta framtíðinni. Skipulagsbreytingarnar eru stærsta umbótaverkefnið en við erum jafnframt að breyta áherslum í starfseminni og á vinnustaðnum almennt,“ segir Magnús.

 

Hann kveðst mjög ánægður með hvernig til hafi tekist í skipulagsvinnunni.

 

„Búið er að skipa öfluga framkvæmdastjórn þar sem RARIK er með, í fyrsta skipti í sögunni, jafnt kynjahlutfall. Fjórar konur og fjóra karla. RARIK er frábært fyrirtæki og hefur gert góða hluti í gegnum tíðina en tímarnir eru að breytast. Við þurfum að ganga þar í góðum takt, fylgja og í sumum tilfellum leiða breytingarnar. Kynslóðaskipti eiga sér stað en byggja þarf á reynslunni með tækniframfarir framtíðar sem mikilvægt hreyfiafl í breytingunum.“

 

Magnús segir að fram að þessu hafi raforkukerfi landsins verið að miklu leyti miðlæg.

 

„Raforkan er framleidd í stórum virkjunum, flutningskerfið, Landsnet, tekur svo við og flytur raforkuna frá framleiðendum til stórnotenda og dreifiveitna eins og okkar. Við sjáum svo um að dreifa rafmagni til smærri notenda, fyrirtækja og heimila,“ útskýrir Magnús.

 

Þannig er flutningskerfi Landsnets eins og þjóðvegur nr. 1 en dreifikerfi dreifiveitnanna reka alla aðra vegi landsins, eins og Magnús útskýrir. „Flutningskerfið er á hærri spennu, 66 kW og ofar, en dreifikerfið er á lægri spennu.“

 

Fimm dreifiveitur eru á landinu. Auk RARIK eru það Veitur, Orkubú Vestfjarða, Norðurorka og HS Veitur.

 

„Dreifing á rafmagni er háð sérleyfi en orkuframleiðsla og sala eru á samkeppnismarkaði. Það þekkist almennt ekki að flutningur og dreifing á raforku sé á samkeppnismarkaði. Þá værirðu að byggja innviði með margföldum kostnaði,“ segir hann.


„Orkuskiptin eru drifin áfram af loftslagsvá, væntingum viðskiptavina og tækniframförum.“


Fleiri smærri aðilar

 

Magnús segir að orkuskiptin séu drifin áfram af loftslagsvá, væntingum viðskiptavina og tækniframförum.

 

„Smávirkjunum og örvirkjunum hefur fjölgað mjög mikið. Sífellt fleiri notendur framleiða sína eigin endurnýjanlegu orku með smávirkjunum og í framtíðinni munum við sjá fleiri smærri aðila sem framleiða rafmagn með sólarsellum og vindmyllum svo nefnd séu dæmi.“

 

Hann segir að í framtíðinni leiki þessar smærri virkjanir stærra og stærra hlutverk en einnig muni hleðslubankar, eins konar stór batterí, verða fyrirferðarmiklir í dreifikerfinu. 

 

„Hleðslubankar verða sérstaklega mikilvægir í samspili við nýja orkugjafa, svo sem sól og vind, þar sem framleiðslan er ekki stöðug. Dreifiveiturnar koma til með að hlaða og afhlaða hleðslubanka eftir þörfum til að jafna álag í kerfinu.“

 

Magnús segir að hleðslubankar muni í raun sporna við offjárfestingu í raforkukerfinu. 

 

„Ef við ætlum alltaf að fjárfesta miðað við hámarks aflþörf landsins erum við í raun að offjárfesta í kerfinu. Við viljum í staðinn fjárfesta upp að því marki sem þarf til að anna þokkalegu álagi. Hleðslubankarnir koma svo inn þegar álagið verður sem mest.“

 

Magnús útskýrir að mikilvægt sé að allir taki þátt í orkuskiptunum. Almenningur, eða viðskiptavinir orkufyrirtækjanna, muni í ríkari mæli verða bæði kaupendur og framleiðendur raforku. 

 

„Heimili munu t.d. geta keypt hleðslustöðvar fyrir rafbíla sína sem ganga í báðar áttir. Þær gera þeim kleift að fullhlaða bíl sinn á nóttunni þegar álag er minna. Mögulega verður hægt að kaupa rafmagnið ódýrara en selja svo út af rafhlöðu bílsins á daginn þegar álagið er meira og raforkuverð hærra. Þannig munu viðskiptavinir veita rafmagni inn á sína dreifiveitu.“

 

Aðspurður segir Magnús að hleðslustöð sem virkar í báðar áttir kosti vart meira en 10-20 þúsund krónum meira en hefðbundin stöð.

 

„Við erum ekki búin undir að taka við hleðslu af bílum í dag en hluti af verkefninu er að þróa viðskiptalausnirnar og við verðum klárlega tilbúin áður en langt um líður.“

 

Einnig segir Magnús að rafhlöður rafbíla muni í framtíðinni nýtast í annað eftir að líftíma ökutækjanna lýkur.

 

„Það mun skapast eftirmarkaður fyrir þessar rafhlöður. Þannig verða viðskiptavinir, hvort sem það eru eigendur smávirkjana, örvirkjana, eða bara rafbíla, einnig framleiðendur. Orka flæðir bæði til og frá viðskiptavini, ekki bara til hans eins og raunin er í dag í flestum tilvikum. Hann verður þannig þátttakandi í rafdreifikerfinu og orkuskiptunum.“

Reisa þarf fleiri virkjanir

 

Það er alveg ljóst að sögn Magnúsar að reisa þarf fleiri virkjanir og styrkja flutningskerfið til að ná markmiðum um orkuskipti.

 

„Smávirkjanir, bein þátttaka allra og gagnvirkni við viðskiptavini mun hins vegar aukast mikið og einnig spila mikilvægt hlutverk í orkuskiptum til framtíðar.“

 

Þarna mun dreifiveitan fá mjög aukið hlutverk, segir Magnús. 

 

„Hlutverk orkuframleiðslu og flutningskerfis verður áfram mikilvægt í framtíðinni. Það er ljóst að til að anna þeim orkuskiptum sem fram undan eru þarf að bæta í. Hlutverk dreifiveitunnar verður að sjá um stýringu og sjálfvirkni í nýju umhverfi. Eftir því sem tækninni vindur fram, snjallmælar verða komnir í almenna notkun og allir kerfishlutar samtengdir með getu til að skiptast á gögnum má segja að RARIK breytist smátt og smátt í gagnaveitu og upplýsingatæknifyrirtæki. Viðskiptavinir verða meira en bara viðskiptavinir.“

 

Aðspurður segir Magnús að þessi veruleiki, þar sem viðskiptavinir verða líka framleiðendur, geti raungerst á næstu 5-10 árum. Tæknin sé þegar til reiðu og RARIK geti fræðilega séð að hluta til boðið upp á þjónustuna nú þegar.

 

„Við munum byggja kerfi okkar upp til að geta gert þetta í framtíðinni. Þetta er þróun næstu ára. Hluti af ferlinu er að koma snjallmælum í hvert hús þannig að gagnaflæði milli okkar og viðskiptavinar verði stöðugt. Jafnframt er verið að auka fjargæslu og sjálfvirkni í kerfinu almennt.“

 

Í byggingu eru aðveitu- og spennistöðvar með fjargæslukerfum, eins og Magnús útskýrir.

 

„Þannig getum við stýrt kerfinu hvaðan sem er. Skynjarar í kerfinu tala saman og mæla orkuflæðið. Gagnaöflunin og flutningurinn mun gera okkur kleift að stýra kerfinu með sjálfvirkari hætti en gert er í dag. Þetta er fjórða iðnbyltingin. Hún er einn af drifkröftunum í orkuskiptunum. Gervigreind og „internet í öllu alls staðar“ mun hafa áhrif á þróunina.“

 

Spurður nánar um stöðu þessa samtengda veruleika segir Magnús að til dæmis sé búið að tengja um sextíu smávirkjanir við kerfi RARIK.

 

„Þar er orkuflæðið í báðar áttir. Þróa þarf viðskiptalausnirnar áfram en t.d. mun það sama gilda um hús með þaki sem hulið er sólarsellum. Þannig viðskiptavinur er orðinn orkuframleiðandi og hægt verður að taka við þannig orku inn á kerfið og greiða fyrir hana.“

 

Um skipulagsbreytingarnar hjá RARIK segir Magnús að þær séu hluti af því að búa félagið undir breytingar á hlutverki dreifiveitnanna.

 

„Við erum t.d. með nýtt svið sem heitir Þróun og framtíð. Þar verður fókusinn alfarið á orkuskiptin, nýja högun, nýja orkugjafa og framtíðarskipan. Þá erum við með svið sem heitir Viðskiptatækni og skilvirkni. Þar munum við m.a. þróa þessar tæknilegu lausnir sem felast í upplýsingatækni, eða viðskiptatækni eins og við kjósum að kalla það, og nýtum fjarskipti og sjálfvirkni til að auka skilvirkni. Á þriðja nýja sviðinu, Viðskiptaþjónustu, einblínum við á betri þjónustu og samskipti við viðskiptavininn. Það er alveg ljóst að viðskiptavinurinn verður þátttakandi í þessu verkefni. Við viljum eiga í gagnvirku sambandi við hann, hlusta á hann og fá að vita hverju við getum breytt. Hvernig við getum minnkað sóun og aukið nýtni. Þetta verður stór breyting frá því sem var þegar heimilin fengu heimsókn einu sinni á ári frá starfsmanni RARIK að lesa á mæli. Meira samtal og samvinna milli veitu og viðskiptavinar verður til.“

 

 


Viðskiptavinir fjármagni ekki einir

Magnús segir aðspurður að stökkbreyting hafi orðið í orkuskiptum í samgöngum og eftirspurn eftir hleðslustöðvum á landsbyggðinni. „Mjög margir aðilar hafa áhuga á að setja upp hleðslustöðvar. Það er að gerast mjög hratt úti um landið. Við tökum vel á móti öllum og hjálpum til við að gera þetta mögulegt."

 

Orkuskipti í samgöngum á landsbyggðinni munu þjóna ferðaþjónustu og flutningum fyrir alla landsmenn, að sögn Magnúsar. Uppbyggingin kalli á mikla fjárfestingu og huga þurfi að því hvernig sú uppbygging verði fjármögnuð. Magnús segir ekki eðlilegt að viðskiptavinir RARIK standi einir undir þeirri fjárfestingu. Þar þurfi frekari þátttöku hins opinbera eða miklu ríkari jöfnun kostnaðar á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Hann segir jafnframt að samtal um þetta sé í gangi á réttum stöðum.

 

Í því verkefni sem orkuskipti á landsbyggðinni er, er feikilega mikilvægt, eins og Magnús orðar það, að gott samstarf verði á milli dreifiveitna og sveitarfélaga. „Leyfisveitingaferli geta verið flöskuhálsar í svona málum. Þarna hafa sveitarfélögin tækifæri til að taka orkuskipti virkilega fyrir og inn í sín skipulagsmál, að þau horfi til orkuskipta og orkuinnviða, þannig að þau séu tilbúin. Þetta er samhangandi keðja sem allir þurfa að huga að. En þegar kemur að aðgengi að orku stendur ekki á okkur að útvega það sem að okkur snýr,“ segir Magnús.

 


 

Allt við sjóndeildarhringinn

 

Almennt er það mat Magnúsar að orkuskipti í samgöngum muni ganga hraðar en hingað til hefur verið spáð.

 

„Útskipti á bílum í dag eru að miklu leyti yfir í rafmagnsbíla. Svo erum við að sjá orkuskipti á sjó og byrjað er að ræða það sama í innanlandsfluginu. Þetta er allt við sjóndeildarhringinn.“

 

RARIK rekur víðfeðmasta dreifikerfi landsins, eins og Magnús útskýrir.

 

„Kerfið okkar er yfir níu þúsund kílómetrar að lengd. Það er svipuð vegalengd og héðan og til Tókýó í Japan. En við erum ekki með flesta viðskiptavinina því að við erum að mestu leyti að þjóna dreifbýli landsins.“

 

Um tvö hundruð manns vinna hjá RARIK. Yfir 70% þeirra starfa vítt og breitt um landið.

 

„Við erum landsbyggðarfyrirtæki þó að höfuðstöðvarnar séu í Reykjavík. Í gegnum tíðina hefur öðru hvoru verið kallað á flutning okkar út á land. Flutningur höfuðstöðva í einn landshluta myndi hins vegar þýða óhagræði fyrir aðra landshluta. Það er jafnframt svo að stór hluti viðskiptavina RARIK er með aðsetur á höfuðborgarsvæðinu þó að notkunin sé annars staðar. Við erum stolt af því að vera landsbyggðarfyrirtæki með stærstan hluta okkar starfsfólks úti á landi. Við auglýsum í dag öll störf sérfræðinga og stjórnenda án staðsetningar sé þess nokkur kostur. Flutningur höfuðstöðva myndi enn fremur ekki leiða til þess að starfsstöð í Reykjavík yrði lögð niður. Það verður alltaf þörf fyrir hana í okkar dreifða fyrirtæki.“

 

Spurður að því hvort tækniframfarir þýði breytingar á starfsmannafjölda segist Magnús ekki eiga von á því. Fjöldinn hafi verið nokkuð stöðugur sl. ár og verði það áfram.

 

„Ég sé engar stórkostlegar byltingar í því. En það er ljóst að við verðum að hafa þá þekkingu og færni í fyrirtækinu sem nýir tímar kalla á.“

 

Hann segir að nýverið hafi tólf störf tengd skipulagsbreytingunum verið auglýst, þar af starf eins framkvæmdastjóra.

 

„Við fengum frábærar umsóknir. Fólk hefur sem betur fer áhuga á að vinna hér. Við leggjum enda mikla áherslu á mannauðsmál og góða og heilbrigða vinnustaðarmenningu.“

 

Magnús segir að stöðugt þurfi að huga að breyttu vinnuumhverfi. Hann segir að væntingar starfsfólks séu orðnar allt aðrar en þær voru hér áður fyrr.

 

„Fólk er ekki endilega að æviráða sig lengur. Hjá RARIK hafa margir unnið í 40-50 ár sleitulaust. Ef við viljum halda því þannig þarf virkilega að hafa fyrir því að búa til gott vinnuumhverfi. Ég vil að þetta sé þannig vinnustaður að allir hafi áhuga á að vinna hér, óháð kyni, kynferði, uppruna og aldri.“

Fortíðin er góð

 

-Hugsar þú mikið um ímynd fyrirtækisins?

 

„Já, ég geri það. Fortíðin er góð en við viljum ekki bara vera gamla góða RARIK. Við viljum vera framsækið tæknifyrirtæki. Þangað erum við að stefna. Framtíðin kallar eftir því. Við tökum mjög alvarlega það hlutverk sem dreifiveitan á að gegna. Við erum fyrirtækið sem á að gera orkuskiptin möguleg á landsbyggðinni. Við þurfum að sjá til þess að þau gangi eftir og tryggja að aðilar þar hafi sömu tækifæri og fólk á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er viðamikið verkefni. Ef við ætlum að ná markmiðum okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu þurfum við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030. Til að það geti gerst þarf að tvöfalda getuna í flutnings- og dreifikerfum landsins á næstu tíu árum, og að megninu til fyrir 2030. Til þess þarf bæði hugvit og fjárfestingu.“

 

Magnús segir að RARIK hafi lagt mikla fjármuni í jarðstrengi á síðustu árum.

 

„Við erum að breyta öllu okkar kerfi úr loftlínum í jarðstrengi. 75% af raforkukerfi RARIK hafa verið strengvædd. Við ætlum okkur að vera búin að strengvæða öll byggð ból fyrir 2030 og allt kerfið fyrir 2035. Það mun auka áreiðanleika þess. Strengvæðingin er líka ákveðið svar við loftslagsvá. Veður verða ófyrirsjáanlegri í framtíðinni og hafa þannig áhrif á raforkukerfin. Þegar allar línur eru komnar í jörðu verðum við búin að útrýma ákveðinni áhættu. Það er ánægjulegt hve vel það hefur gengið en það þarf að halda vel á spöðunum áfram.“

 

Fjárfesting RARIK í dreifikerfinu nemur um sjö milljörðum króna á þessu ári.

 

„Ég sé fyrir mér að næstu ár verði svipuðum fjármunum varið árlega í fjárfestingar. Við byggjum kerfin upp þannig að þau standist væntingar og anni orkuskiptum til framtíðar,“ segir Magnús að lokum.

 

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik
Við notum vafrakökur til að bæta upplifun þína á vefnum. Með því að halda áfram að vafra um þessa síðu samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum. Smelltu hér fyrir neðan til að fá frekari upplýsingar.
Stillingar