ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Há tré geta truflað rafmagn

Skógrækt er í sókn á Íslandi og því ber að fagna. RARIK hefur tekið þátt í verkefnum um skógrækt og í seinni tíð er áherslan orðin enn ríkari á þennan þátt til kolefnisjöfnunar í samfélaginu. Á sama tíma og skógræktin fær aukið vægi er vert að benda á vandamál sem fylgir sambýli háspennulína og hárra trjáa.

Um 72% af dreifikerfi RARIK er komið í jörð en fyrirtækið á enn tæplega 2.700 km af loftlínum og er áætlað að þær síðustu verði horfnar árið 2035. Yfirleitt eru það vond veður eða áflug fugla sem valda truflunum í loftlínukerfinu með tilheyrandi rafmagnsleysi hjá viðskiptavinum en einnig gerist það í auknum mæli að tré sem vaxa upp í línur valdi truflunum. Auk þess að trufla afhendingu rafmagns, geta þessar aðstæður einnig valdið eldhættu. Dæmi eru um að neistar sem geta myndast, t.d. þegar línuvír slitnar, hafi kveikt í þurrum gróðri þar með talið trjágróðri. RARIK ber lögum samkvæmt skylda til að sinna viðhaldi á dreifikerfi fyrirtækisins og hluti af þeirri vinnu felst í að grisja og fjarlægja trjágróður sem er of nálægt loftlínum. Einnig getur þurft að fjarlægja trjágróður við bilanaleit og viðgerðir á línum og jarðstrengjum.


Öryggi er best tryggt með því að fella tré undir línum og í ákveðinni fjarlægð frá þeim. Í undantekningartilfellum er hægt að sníða trén til og þá er mikilvægt að það sé gert á faglegan og snyrtilegan hátt. Samkvæmt verklagsreglum RARIK ber að hafa samráð við landeiganda áður en farið er í grisjun á trjágróðri vegna viðhalds. RARIK kostar þessa grisjun en tré og greinar sem til falla eru eign landeiganda. RARIK getur hins vegar fjarlægt það sem til fellur á sinn kostnað ef þess er óskað.

 

Meðfylgjandi myndir eru úr Lóninu þar sem tré voru komin vel upp undir línur RARIK. Fenginn var fagaðili til að fella og snyrta þessi tré og hefur það dregið úr hættu á rafmagnstruflunum á þessu svæði. Þetta er eitt af þremur svæðum á Austurlandi, þar sem RARIK hefur þurft að grisja skóg af þessum ástæðum það sem af er ári. Ábendingar um tré sem eru vaxin upp í loftlínur RARIK eru vel þegnar. 

Myndir úr Lóninu þar sem tré voru komin vel upp undir línur RARIK
Myndir úr Lóninu þar sem tré voru komin vel upp undir línur RARIK.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

Þjónustuver

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

Bilanavakt allan sólarhringinn

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik