ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Aðalfundur RARIK 2012

Aðalfundur RARIK var haldinn í höfuðstöðvum fyrirtækisins föstudaginn 16. mars. Rekstur RARIK samstæðunnar á árinu 2011 var í samræmi við áætlanir og gekk ágætlega og var hagnaður í árslok rúmur milljarður.

Árni Steinar Jóhannsson, formaður stjórnar RARIK ohf. flutti ávarp við upphaf aðalfundarins. Hann sagði m.a. að nauðsynlegt sé að hefja af fullri alvöru umræðu um fyrirkomulag til jöfnunar á raforkukostnaði. Hann taldi að vel komi til álita að verja hluta af þeim tekjum sem ríkissjóður aflar nú í formi orkuskatta, til þess að jafna raforkuverð í landinu.

 

Um 2. áfanga rammaáætlunar sagði Árni að mikilvægt væri að ljúka þeirri vinnu sem fyrst af vandvirkni. Ef vikið er frá faglegri vinnu verkefnisstjórnarinnar og verulegar breytingar gerðar á röðun einstakra kosta er hætt við að ekki náist sátt um málaflokkinn.

 

Hann sagði það einnig koma á óvart að Hólmsárvirkjun sé ekki í nýtingarflokki, í ljósi þess hve upphaflegur virkjunarkostur í Hólmsá kom vel út í fyrsta hluta rammaáætlunar og hve mikið hefur verið gert til að minnka umhverfisáhrif með því að velja virkjuninni stað við Atley.

 

Að lokum þakkaði hann fyrir hönd stjórnar starfsmönnum RARIK fyrir fórnfús störf í þágu fyrirtækisins.

 

“Við gerum okkur öll grein fyrir því, að velgengni fyrirtækisins á sínar styrku stoðir í þeim mannauði sem RARIK býr yfir”.

 

Ennfremur þakkaði Árni meðstjórnarmönnum sínum og forstjóra fyrirtækisins kærlega fyrir samstarfið á liðnu ári.

 

„Um allar ákvarðanir ríkti algjör einhugur með stjórn og forstjóra sem ég tel hafa verið lykilinn að þeim árangri sem náðst hefur og að fyrirtækið stendur traust“.

 

Að svo mæltu sagði Árni Steinar þennan sjötta aðalfund RARIK ohf. settan, skipaði Lárus L. Blöndal sem fundarstjóra og Ólaf Hilmar Sverrisson sem fundarritara.

 

Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri, flutti yfirgripsmikla skýrslu stjórnar og forstjóra um starfsemina á síðasta ári.

 

Rekstur RARIK samstæðunnar á árinu 2011 var í samræmi við áætlanir og gekk ágætlega eins og niðurstaða ársreiknings ber með sér. Fjármagnsgjöld reyndust þó hærri en búist var við, einkum vegna meiri verðbólgu en gert var ráð fyrir. Rekstraráætlanir ársins gerðu ráð fyrir áframhaldandi aðhaldi í rekstri, en dregið var nokkuð úr þeim mikla niðurskurði sem farið var í á árunum 2009 og 2010 sem m.a. fólst í frestun á fjölmörgum viðhalds- og endurnýjunarverkefnum við dreifikerfið.


Fjárfestingar á árinu voru alls 1.940 milljónir króna, þar af 1.116 milljónir vegna dreifikerfisins og 510 milljónir vegna stofnkerfis og endurnýjunar orkumæla.

 

Langstærsti hluti þess fjármagns sem veitt var til nýlagna, endurnýjunar og styrkingar dreifikerfisins fór til verkefna í dreifbýli, eða alls 947 milljónir. Eins og undanfarin ár var öll endurnýjun línukerfisins í formi þriggja fasa jarðstrengja og gat þess að undanfarin ári hafi árlega verið lagðir 2-3 hundruð km af hápennujarðstrengjum, í stað loftlína. Hlutfall jarðstrengja í raforkudreifikerfi í strjálbýli fer því ört vaxandi og er nú orðið um 43%.

 

Í samstæðu RARIK eru nú 3 dótturfélög; Orkusalan ehf., RARIK Orkuþróun ehf. (RED) og Ljós- og gagnaleiðari ehf. (LoG). Rekstur Orkusölunnar á sínu fimmta starfsári gekk vel og í samræmi við áætlanir, en hagnaður í árslok var 123 milljónir króna.

 

Skýrsla stjórnar og forstjóra er birt hér á heimasíðu RARIK

 

Að lokum sagði Tryggvi:

 

„Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka starfsmönnum RARIK og dótturfélaga fyrir frábært starf á árinu 2011, samheldni þeirra og samstöðu með fyrirtækinu. Þá vil ég þakka stjórn RARIK fyrir mjög ánægjulegt samstarf, samstöðu hennar í öllum ákvörðunum og nauðsynlegt aðhald sem hún hefur sýnt okkur starfsmönnum“.

 

Undir næsta dagskrárlið fór Tryggvi Þór Haraldsson yfir og kynnti ársreikning 2011.

Í máli hans kom fram m.a. að hagnaður að teknu tilliti til tekjuskatts var 1.014 milljónir króna.

 

Heildareignir RARIK samkvæmt efnahagsreikningi voru rúmir 37 milljarðar króna, skuldir í árslok voru um 18 milljarðar króna og eigið fé því um 19 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 51,9%. Eigið fé RARIK hækkaði um 5,5% frá árinu 2010. Ekki var þörf fyrir sérstaka fjármögnun (lántökur)vegna reksturs eða fjárfestinga á árinu 2011.

 

Efnahagsreikningur og rekstrarreikningur fyrir árið 2011, var borinn upp og samþykktur.

 

Samþykkt var tillaga stjórnar RARIK þess efnis að ekki yrði greiddur út arður á árinu.

 

Sjá nánar ársskýrslu og ársreikning fyrir 2011 hér á heimasíðu RARIK.

 

Tilnefning í stjórn RARIK ohf frá aðalfundi 2012 til aðalfundar 2013
Samþykkt var tillaga um eftirfarandi aðal- og varastjórnarmenn:

 

Aðalstjórn:

  • Árni Steinar Jóhannsson Hafnarbraut 4 Fjarðabyggð
  • Ingibjörg Sigmundsdóttir Heiðmörk 31 Hveragerði
  • Hilmar Gunnlaugsson Hamrahlíð 4 Egilsstöðum
  • Huld Aðalbjarnardóttir Víðisholti 1 Húsavík
  • Valdimar Guðmannsson Hlíðarbraut 1 Blönduósi

Varastjórn:

  • Ingibjörg I. Guðmundsdóttir Brekkuhvammi, Reykh.dal Borgarfirði
  • Þorvarður Hjaltason Sigtúnum 7 Selfossi
  • Berglind Hallgrímsdóttir Ásvallagötu 3 Reykjavík
  • Sigurður Viggósson Sigtúni 5 Patreksfirði
  • Jóhanna E. van Schalkwyk Borgarbraut 9 Grundarfirði

 

Þórhallur Arason, fulltrúi eiganda, kvaddi sér hljóðs og bar fundinum kveðju Oddnýjar G. Harðardóttur, fjármálaráðherra, sem ekki gat mætt á fundinn. Hann lýsti yfir ánægju með að hagur félagsins væri góður. Þórhallur gat þess einnig að unnið væri að eigandastefnu á vegum fjármálaráðuneytisins, en ráðuneytið fer nú með eignarhluta ríkisins í flestum félögum þess. Að lokum þakkaði hann nýendurkjörinni stjórn fyrir störf í þágu félagsins einnig þakkaði hann forstjóra og starfsmönnum RARIK fyrir árangursríkt starf.

Frá aðalfundi 2012
Frá aðalfundi 2012.
Erindi aðalfundar 2012
Ársskýrsla 2011

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

SKIPTIBORÐ

Sími: 528 9000
Fax: 528 9009
Opið:
Mán-fim 8-16 og fös 8-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Bilanir Vesturlandi: 528 9390
Bilanir Norðurlandi.: 528 9690
Bilanir Austurlandi: 528 9790
Bilanir Suðurlandi: 528 9890
Rarik