Rarik

Bilun í streng olli rafmagnsleysi á Breiðdalsvík

Rafmagnsleysi á Breiðdalsvík í gær stafaði af bilun í streng í aðveitustöð á Ormstöðum. Þorpið og nokkrir bæir næst þorpinu voru straumlausir frá kl. 14:18 til 21:24, en sveitin var að öðru leyti með rafmagn.

Dreifikerfi RARIK og aðveitustöðvar í grennd við Breiðdalsvík
Dreifikerfi RARIK og aðveitustöðvar í grennd við Breiðdalsvík

Bilunin fannst ekki fyrr en eftir talsverða leit og reyndist vera í stuttum jarðstreng næst aðveitustöðinni. Strengurinn liggur frá rofa í aðveitustöðinni út á línu sem liggur til Breiðdalsvíkur. Engir áverkar voru á strengnum og virðist bilunin vera vegna galla í strengnum, en hann var spennusettur árið 1983. Skipt var um hluta af strengnum, en skv. áætlunum er rúmt ár þar til stöðin verður lögð af og önnur aðveitustöð byggð nær þorpinu. Jafnframt verður lagður jarðstrengur milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur og línan yfir Fossaskarð aflögð. Þessar aðgerðir eru hugsaðar til að bæta afhendingaröryggið á þessu svæði og ekki síst á Breiðdalsvík og nágrenni.

 

Varavél sem jafnan á að vera á Fáskrúðsfirði er í Öræfum. Vélin er í Öræfunum vegna mikil álags á kerfinu þar, en vegna álagsaukningar að undanförnu annar flutnings- og dreifikerfið ekki álaginu nema Smyrlabjargarárvirkjunin sé tengd og framleiði inn á kerfið. Virkjunin var biluð í sumar og hélt varavélin þá uppi spennu á svæðinu. Það er einnig ljóst að í vetur mun raforkukerfið í Öræfum ekki anna álagi á svæðinu þótt virkjunin sé tengd, nema varavél keyri þar undir og hefur þetta verið ljóst í nokkurn tíma. Beðið er eftir nýrri aðveitustöð sem Landsnet mun byggja á byggðalínunni við Hnappavelli og vonast er til að hún komist í notkun veturinn 2018/2019.

 

Nokkrar aðrar varavélar RARIK hafa verið uppteknar vegna vinnu við flutningskerfi Landsnets. RARIK flutti fjórar varavélar á norðausturhornið vegna framkvæmda við Kópaskerslínu Landsnets sem liggur frá Laxá til Kópaskers. Línan er eina tenging norðausturhornsins við landskerfið og varð því að framleiða allt rafmagn fyrir svæðið með varavélum, föstum og færanlegum. Vélarnar voru notaðar á meðan unnið var við línuna 17.-20. ágúst sl. og gert ráð fyrir að aftur verði farið í framkvæmdir þar í byrjun september og síðan um miðjan september. Vélarnar eru staðsettar í Kelduhverfi, við Kópasker, á Raufarhöfn og á Þórshöfn. Þær voru ekki í notkun þegar bilunin á Ormsstöðum varð , en það hefði tekið minnst fjóra tíma að flytja lausa vél á staðinn, fyrir utan tengivinnu. Starfsmenn RARIK mátu það svo að viðgerð á Breiðdal yrði lokið fyrir þann tíma. Ef vélin hefði verið á Fáskrúðsfirði, þá hefði sú vél verið flutt strax á Breiðdal.

 

RARIK hefur á undanförnum árum fjölgað færanlegum varavélum sínum og útbúið þær þannig að auðvelt sé að flytja þær. Vélarnar hafa oftar en ekki verið notaðar vegna truflana í flutningskerfinu og nýtast þannig fyrir viðskiptavini RARIK. Það er hins vegar slæmt að hafa þær ekki tiltækar þegar bilun verður í dreifikerfi RARIK af því að þær eru að sinna vandamálum flutningskerfisins, sem því miður fara vaxandi á Norður- og Austurlandi.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

Rarik

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

SKIPTIBORÐ

Samband við öll svið
Sími: 528 9000
Fax: 528 9009
Opið: 08:00-16:00

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Bilanir Vesturl.: 528 9390
Bilanir Norðurl.: 528 9690
Bilanir Austurl.: 528 9790
Bilanir Suðurl.: 528 9890
Rarik