ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit
2021
2021 - Ný hitaveita í Hornafirði formlega tekin í notkun

2021 - Ný hitaveita í Hornafirði formlega tekin í notkun

Hitaveita Hornafjarðar var tekin formlega í notkun þann 21. október 2021 en þá var lagningu nýrrar hitaveitu RARIK fyrir Höfn og hluta Nesja um það bil að ljúka. Áratugina áður var rekin kyndistöð og dreifikerfi fyrir rafkynta fjarvarmaveitu á Höfn og voru ¾ húsa í bænum tengd veitunni sem notaði ótryggða raforku en olíu til vara til að hita upp vatn fyrir dreifikerfi veitunnar. 

 

Samanlagður kostnaður RARIK við virkjun jarðvarmans, lagningu 20 km. stofnpípu frá virkjunarsvæðinu við Hoffell til Hafnar og uppbygging dreifikerfis nam um 3,5 milljörðum króna árið 2021. Fjórar vinnsluholur eru tiltækar í Hoffelli. Þrjár þeirra hafa þegar verið virkjaðar og eina er hægt að virkja síðar. Vísindamenn telja að jarðhitasvæðið í Hoffelli og uppsett kerfi geti staðið undir umtalsverðri stækkun byggðar eða fjölgun notenda frá því sem nú er.

2020

2020 - Snjallmælaverkefni RARIK

Árið 2020 var snjallmælaverkefni RARIK bætt á verkefnalista heimsmarkmiða SÞ en það felur í sér endurnýjun orkumæla í dreifikerfi RARIK um allt land, bæði raforkumæla og hitaorkumæla. Í þeirra stað verða settir snjallmælar á næstu sex árum. Með nýjum orkumælum munu reikningar viðskiptavina byggjast á raunupplýsingum um notkun hvers mánaðar í stað áætlunar og uppgjörsreiknings að loknum álestri. Heimsóknir til að lesa á mæla viðskiptavina munu leggjast af, en áætlað er að fulltrúar RARIK aki 60–100 þúsund kílómetra á ári til að ná lögbundnum álestrum. Snjallmælavæðingin mun því draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem svarar til rúmlega 8,6 tonna af koldíoxíði á ári.

2020

2020 - RARIK kaupir Rafveitu Reyðarfjarðar

Í lok janúar 2020 var gengið frá kaupum RARIK á dreifikerfi og spennistöðvum Rafveitu Reyðarfjarðar. Samhliða keypti Orkusalan rafstöð og stíflu og tók yfir sölusamninga veitunnar. Rafveita Reyðarfjarðar var stofnuð árið 1929 um virkjun í Búðará og var hún síðasta dreifiveita rafmagns hér á landi sem var í beinni eigu og rekstri sveitarfélags.  Vegna aukinna krafna í rekstrarumhverfi, samkeppni og í tæknilegu umhverfi rafveitna taldi meirihluti bæjarstjórnar Fjarðbyggðar að öryggi og þjónusta við notendur rafveitunnar yrðu best tryggð til framtíðar með því að fela fyrirtækjum sem eru í opinberri eigu og með rekstur á svæðinu eignarhald og rekstur veitunnar. Því var leitað eftir samningum um sölu á Rafveitu Reyðarfjarðar við RARIK og Orkusöluna.

2020

2020 - Lagningu jarðstrengja flýtt

Árið 2020 voru fjárfestingar í dreifikerfi raforku umfram langtímaáætlanir því lagningu jarðstrengja var flýtt í kjölfar tjóna á dreifikerfinu í lok árs 2019 og byrjun árs 2020.

 

Samkvæmt áfangaskiptri áætlun um strengvæðingu dreifikerfisins er miðað við að fyrir 2030 verði öll býli í ábúð komin með þriggja fasa kerfi og að nánast allt dreifikerfi RARIK verði komið í þriggja fasa jarðstrengi árið 2035.  Í lok árs 2021 voru rúnlega 70% af liðlega 9000 km dreifikerfi komin í jarðstrengi en um 30% voru þá enn í loftlínum. 

2019
2019 - Tjón í fárviðri

2019 - Tjón í fárviðri

Um miðjan desember 2019 gekk fárviðri yfir Norðurland sem var það versta sem raforkukerfi RARIK hafði þurft að glíma við allt frá árinu 1991. Þetta reyndist mikil áskorun fyrir fyrirtækið og viðskiptavini þess, bæði vegna truflana í kerfi RARIK og ekki síður í flutningskerfi Landsnets. Ríflega 140 staurar í dreifikerfi RARIK brotnuðu í þessu óveðri auk annarra skemmda sem ollu yfir 50 truflunum í kerfinu og umtalsverðri skerðingu á orkuafhendingu til notenda. Endanlegar viðgerðir stóðu yfir langt fram eftir árinu 2020 þar sem loftlínum var skipt út fyrir jarðstrengi. Um 90% þeirra lína sem biluðu höfðu í lok árs 2021 verið lagðar í jörð og því er dreifikerfi RARIK nú mun betur í stakk búið til að takast á við veður sem þessi.

2019
2019 - Jarðstrengjavæðing RARIK á meðal heimsmarkmiða SÞ

2019 - Jarðstrengjavæðing RARIK á meðal heimsmarkmiða SÞ

Árið 2019 tilkynnti RARIK strengvæðingu raforkudreifikerfisins inn á verkefnalista heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2016 -2030. Kjarninn í áætluninni eru 17 heimsmarkmið þar sem lagðar eru til grundvallar þrjár stoðir: sjálfbærrar þróunar, efnahags, samfélags og náttúru. Markmið verkefnisins er að efla raforkukerfið og auka raforkuöryggi í dreifbýli og að draga úr truflunum í dreifikerfinu. Með auknu afhendingaröryggi minnkar jafnframt þörf á að keyra dísilknúnar varaaflsstöðvar. 

2019
2019	- Rafvæðing hálendis

2019 - Rafvæðing hálendis

Vinna við dreifikerfi RARIK hefur ekki eingöngu snúist um að endurnýja loftlínur með jarðstrengjum því dreifikerfið hefur stækkað jafnt og þétt í samræmi við aukna eftirspurn eftir raforku á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins. Í október 2019 lauk lagningu tæplega 70 km jarðstrengs frá Bláfellshálsi til ferðaþjónustuaðila á Kjalvegi en þar með tengdust meðal annars bæði Hveravellir og Kerlingarfjöll raforkukerfinu. Verkefnið var nefnt „Orkuskipti á Kili“ og var samstarfsverkefni stjórnvalda, RARIK, sveitarfélaga og ferðaþjónustuaðila. Þegar strengurinn var spennusettur í desember 2019 leysti vistvænt rafmagn af hólmi rafmagn sem fram til þess hafði verið framleitt með jarðefnaeldsneyti.

2018
2018 - Rekstrargrundvöllur fjarvarmaveitna brestur

2018 - Rekstrargrundvöllur fjarvarmaveitna brestur

Í ársskýrslu RARIK 2018 kom fram að ekki væru lengur forsendur fyrir rekstri fjarvarmaveitna á Seyðisfirði og á Höfn vegna mikillar óvissu um framboð á ótryggðri raforku sem rekstur veitnanna byggði á. Upprunalegur rekstrargrundvöllur fjarvarmaveitna af þessu tagi var talinn brostinn nema til kæmi veruleg hækkun gjaldskrár sem gerði þessar veitur óhæfar til samkeppni við aðra húshitunarkosti. Á Höfn í Hornafirði leysti ný jarðvarmaveita með heitu vatni frá jarðhitasvæðinu í Hoffelli fjarvarmaveituna af hólmi í desember 2020. Hins vegar hefur verið ákveðið að hætta rekstri veitunnar á Seyðisfirði og hefur sú niðurstaða verið kynnt bæjaryfirvöldum og á fundi með íbúum. Framhaldið er nú til skoðunar hjá sveitarfélaginu. 

2012

2012 - Óveðurstjón

Mikið tjón varð á dreifikerfi RARIK í ofsaveðri í september árið 2012 þegar ísing sligaði línukerfið á Norðurlandi einkum í Mývatnssveit og 100 staurar brotnuðu. Í lok ársins varð síðan talsvert tjón á dreifikerfinu á Snæfellsnesi og í Dölum og var tjón á dreifikerfi RARIK það mesta sem orðið hafði á einu ári í 17 ár, eða frá árinu 1995. Í framhaldinu var ákveðið að í stað þess að lagfæra línukerfið yrði endurnýjun dreifikerfisins flýtt og það endurbyggt með jarðstrengjum og jarðspennistöðvum. 

2003
2003-2007 - Uppskipting orkukerfisins

2003-2007 - Uppskipting orkukerfisins

Með nýjum raforkulögum árið 2003 voru stigin skref til að markaðsvæða orkuiðnaðinn á Íslandi. Þetta fól meðal annars í sér aðskilnað samkeppnis- og einkaleyfisþátta og í kjölfarið hætti RARIK að sinna heildsölu rafmagns og stofnað var sérstakt dótturfélag, Orkusalan, um framleiðslu og sölu á vegum fyrirtækisins. Landsnet hf tók til starfa 1. janúar 2005 til að annast meginflutning rafmagns í landinu. Meirihluti stofnlínukerfis RARIK var seldur til Landsnets hf. og eignaðist RARIK þá rúmlega 22% hlut í félaginu. RARIK ohf. var stofnað 1. ágúst 2006 sem hlutafélag í eigu ríkisins og tók þá við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins sem hófu starfsemi sína þann 1. janúar árið 1947. Megináhersla RARIK er á raforkudreifingu og hefur verið unnið jafnt og þétt að uppbyggingu og rekstri dreifikerfa í sveitum, en um 90% þeirra eru í umsjá RARIK. Dreifikerfi RARIK nær til Vestur-, Norður-, Austur- og Suðurlands og þar á meðal til 44 þéttbýliskjarna víðsvegar um landið. Lengd dreifikerfisins er ríflega 9.000 km og í byrjun afmælisársins 2022 voru ríflega 70% þess komin í jarðstrengi en strengvæðing hófst hjá fyrirtækinu upp úr 1990. 

1991

1991-2006 - Hitaveitur á Siglufirði, Blönduósi og Skagaströnd

Vorið 1991 eignaðist RARIK Hitaveitu Siglufjarðar sem er jarðhitaveita. Með kaupunum varð nokkur eðlisbreyting á rekstri RARIK sem þar með hóf að selja jarðhitaorku auk rafmagns. Árið 2003 keypti RARIK Hitaveitu Dalabyggðar og í maí 2005 var undirritaður samningur um kaup RARIK á eignum Hitaveitu Blönduóss. Þar á meðal voru öll jarðhitaréttindi Blönduóssbæjar í landi Reykja, ásamt öllum mannvirkjum tengdum nýtingu á heitu vatni, þ.m.t. dreifikerfi hitaveitunnar. Í framhaldinu var í ársbyrjun 2006 undirrituð viljayfirlýsing um lagningu hitaveitu til Skagastrandar. Framkvæmdum við hitaveitu á Skagaströnd lauk árið 2013 og var lögð stofnlögn í gegnum Blönduós og þaðan til Skagastrandar. Þá var dreifikerfi lagt innanbæjar á Skagaströnd og tengt í öll hús og var hitaveitan formlega tekin í notkun á haustmánuðum.  Til að anna aukinni heitavatnsnotkun var boruð til viðbótar 1.000 m hola á Reykjum við Húnavelli þaðan sem heita vatnið kemur sem þjónar hitaveitunni á Blönduósi og Skagaströnd.

1991

1991-2001 - Dreifikerfi RARIK stækkar

Samhliða kaupum á hitaveitu Siglufjarðar eignaðist RARIK rafveitu Siglufjarðar vorið 1991. 1995 eignaðist RARIK svo Rafveitu Hvanneyrar og í júní sama ár var rafveita Borgarness keypt. Rafveita Hveragerðis bættist svo inn á orkuveitusvæði RARIK í ársbyrjun 2000 og ári seinna voru stoðir fyrirtækisins styrktar á Norðurlandi vestra með kaupum á rafdreifikerfi Sauðárkróks. Síðar bættist rafdreifikerfið á Húsavík við.

1991
1991 og 1995 - Óveðurstjón og jarðstrengjavæðing

1991 og 1995 - Óveðurstjón og jarðstrengjavæðing

Síðustu þrjátíu ár hefur verið unnið að endurnýjun dreifikerfisins um leið og það hefur markvisst verið fært úr loftlínum í háspennujarðstrengi. Upphaf þessa átaks má rekja til tveggja óveðurskafla sem léku dreifikerfið grátt í upphafi árs 1991. Samanlagt brotnuðu í þessum veðrum 650 staurar, 420 slár og skráð voru 250 línuslit. Í kjölfar annars mikils tjóns á dreifikerfinu árið 1995, þegar óveður og ísing brutu liðlega 330 staura auk annarra tjóna, var tekin formleg ákvörðun um að endurnýja dreifikerfið eingöngu með jarðstrengjum. 

1985

1985 - Hitaveita Suðurnesja

Árið 1985 var dreifikerfi RARIK á Reykjanesi fært til Hitaveitu Suðurnesja.

1991

1991-1992 - Fjarvarmaveitur á Höfn og í Seyðisfirði

RARIK eignaðist fjarvarmaveituna á Höfn í byrjun árs 1991 og ári síðar tók RARIK formlega við rekstri dreifikerfis fjarvarmaveitu Hitaveitu Seyðisfjarðar. 

1979

1979-1986 - RARIK annast rekstur Kröfluvirkjunar

Í byrjun árs 1979 tók RARIK við rekstri Kröfluvirkjunar af Kröflunefnd og r ak hana fyrstu árin eða þar til Landsvirkjun keypti Kröflustöð í byrjun árs 1986. 

1979

1979 - Þátttaka í rekstri fjarvarmaveitna

Í byrjun árs 1979 fékk RARIK leyfi iðnaðarráðuneytisins til að taka þátt í uppbyggingu og rekstri fjarvarmaveitna þar sem fyrirtækið reisti og átti kyndistöðvar en hlutaðeigandi sveitarfélag dreifikerfið. Síðar sama ár var fyrsti samningur um fjarvarmaveitu hér á landi undirritaður milli RARIK og Hafnarhrepps í Hornafirði og í kjölfarið var sambærilegur samningur gerður um fjarvarmaveitu á Seyðisfirði. 

1978

1978 - Orkubú Vestfjarða

RARIK hafði unnið að rafvæðingu Vestfjarða í áratugi og reist þar m.a. fjögur orkuver, en árið 1978 tók Orkubú Vestfjarða til starfa og yfirtók eignir, skuldir og reksturinn á því svæði. Fleiri breytingar urðu á starfsumhverfi RARIK á þessum árum. Þannig voru eignir RARIK á Suðurnesjum seldar til Hitaveitu Suðurnesja 1985 og næstu árin tók RARIK hins vegar við rekstri nokkurra bæjarrafveitna: Siglufjörður (1991), Borgarnes (1995), Hvanneyri (1995), Hveragerði (2000), Sauðárkrókur (2001), Húsavík (2009), Reyðarfjörður (2020).

1972

1972-1983 - Byggðalínan og samtenging veitusvæða

Á árinu 1972 var RARIK falið að annast byggingu svokallaðrar Byggðalínu til að tengja orkuveitusvæði Landsvirkjunar á Suðurlandi við orkuveitusvæði Laxárvirkjunar á Norðurlandi. Síðan fylgdi tenging við Kröfluvikjun og þaðan austur á Hérað og til Hornafjarðar og lögð var lína úr Hrútafirði að Mjólkárvirkjun. Hringtengingu Byggðalínu um landið lauk síðan með lagningu Suðurlínu frá Sigöldu að Höfn 1984.  Fyrir tíma Byggðalínu sem er um 1.100 km. lína með 132 kV spennu voru framleiddar tæplega 70 GWst af raforku með olíu en eftir að hún kom til sögunnar minnkaði raforkuframleiðsla með olíu í um 3 GWst á ári. Landsvirkjun tók við Byggðalínunni í byrjun árs 1983. RARIK lauk framkvæmdinni með samningi við Landsvirkjun 1984. Rekstur og eignarhald Byggðalínu færðist síðan formlega frá Landsvirkjun til Landsnets 2005. Á sama tíma byggði RARIK fjölda 66 kV stofnlína sem tengdust Byggðalínunni, þar á meðal línur til Vopnafjarðar og Ólafsfjarðar. Þar með náðist að samtengja allt raforkukerfi landsins.

1969

1969-1970 - Endurskipulagning við breyttar aðstæður

Eftirspurn eftir raforku hélt áfram að vaxa og mætti RARIK henni að hluta með díselstöðvum en árið 1969 var Smyrlabjargarárvirkjun tekin í notkun en henni var ætlað að anna orkuþörf á Höfn og í Austur Skaftafellssýslu. Auk þess kom til nýtt viðfangsefni 1970 sem var samtenging orkuveitusvæðanna sem þá voru 15 talsins.

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik
Við notum vafrakökur til að bæta upplifun þína á vefnum. Með því að halda áfram að vafra um þessa síðu samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum. Smelltu hér fyrir neðan til að fá frekari upplýsingar.
Stillingar