Fimmtudaginn 28. febrúar tók RARIK þátt í neyðaræfingu NSR (Neyðarsamstarf raforkukerfisins). NSR heldur reglulega æfingar sem þessa í þeim tilgangi að þær stofnanir sem teljast til nauðsynlegra innviða samfélagsins séu betur í stakk búnar að takast á við hamfarir og áföll þegar þau verða. Handrit æfingarinnar var samið á vegum framkvæmdanefndar NSR í samstarfi við ýmsa sérfræðinga.
Þema æfingarinnar var eldgos í Öræfajökli. Því fylgdi flóð og öskufall sem olli tjóni og truflunum á raforku- og fjarskiptakerfinu. Jafnframt voru æfð viðbrögð við farsóttaraðstæðum og hvernig hægt væri að taka á við hamfarir af þessu tagi með lágmarks mönnun.
Um var að ræða svokallaða skrifborðsæfingu með raunsamskiptum og tók neyðarstjórn RARIK þátt, ásamt vettvangsstjórnum RARIK á svæðunum. Æfingin gaf þátttakendum tækifæri til að yfirfara viðbragðsáætlanir sínar gagnvart náttúruhamförum og lágmarks mönnun vegna farsótta.
Æfingin var umfangsmikil og voru þátttakendur fulltrúar í NSR þ.e. raforkuflutningsaðili (Landsnet), raforkuframleiðendur og dreifveitur (Landsvirkjun, RARIK, Norðurorka, Orkubú Vestfjarða, HS orka, HS veitur, Orkuveita Reykjavíkur og tengd fyrirtæki) sem og stórnotendur (Alcoa, ÍSAL, Norðurál, Járnblendið), auk Samorku, Orkustofnunar, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytis. Auk þeirra var Veðurstofunni, Landlæknisembættinu, Neyðarlínu, ISAVIA, Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, Póst og fjarskiptastofnun og fjarskiptafélögum ásamt viðbragðsaðilum á suðurlandi formlega boðin þátttaka.
Almennt þótti æfingin takast vel, en verið er að fara yfir þau atriði sem þarf að skerpa á.