ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Truflanir og tjón á dreifikerfi RARIK vegna veðurs í gærkvöldi og í nótt

Lægðin sem gekk yfir landið í gær og í nótt olli nokkrum truflunum og tjóni á dreifikerfi RARIK á Suðurlandi og Austur Skaftafellsýslu en hafði tiltölulega lítil áhrif á öðrum landsvæðum.

Á Suðurlandi varð tjónið og straumleysið mest í Vestur Skaftafellssýslu, einkum á milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur. Viðgerðamenn fóru af stað frá Kirkjubæjarklaustri og Vík en mikil ófærð og veðurhæð olli því að ferð þeirra sóttist seint og tókst ekki að koma straum á frá Klaustri að Nýjabæ fyrr en um kl. 19. Rafmagn komst á Álftaver frá Vík upp úr kl. 21 og rafmagn frá Klaustri að Tungufljóti um kl. 22. Þá voru Skaftártungur komnar með rafmagn.

 

Miklar skemmdir urðu á línukerfinu milli Hólmsár og Tungufljóts þar sem a.m.k. 10 staurar brotnuðu með tilheyrandi vírslitum. Aðkoma að línum á þessu svæði er víða erfið og var strax ljóst að viðgerð gæti tekið töluverðan tíma. Viðbótar mannskapur var sendur frá RARIK á Selfossi og Borgarnesi. Línan milli Hrífuness og Flögu var aftengd, en hún ver verst var farin, þannig að lögð var áhersla á að gera við skemmdir austan bæjanna við Flögu og vestan við Hrífunes. Með þessu móti tókst að koma rafmagni á bæina milli Hólmsár og Tungufljóts. Rafmagn komst á bæina við Hrífunes um kl. 13 í dag, en á Flögubæina um kl. 17.

 

Línan fyrir Landbrot og Meðalland leysti út um kl. 20 í gær. Brotinn staur fannst í Landbroti og slit í Meðallandi. Rafmagn var komið á Landbrotið um kl. 7 í morgun og á Meðallandið um hádegi.

 

Um klukkustundar straumleysi varð á öllu svæðinu austan Víkur að Lómagnúp upp úr kl. 21 í gærkvöldi vegna bilunar á flutningslínu Landsnets milli Sigöldu og Hóla í Hornafirði. Allir íbúar svæðisins urðu þá rafmagnslausir.

 

Notendur í Landssveit og meirihluti notenda í Holtum urðu rafmagnslausir um stundarsakir í gærkvöldi vegna vírslits á línu frá Hellu að Laugalandi.

Í Selvogi varð um þriggja tíma straumleysi vegna vírslits. Viðgerð lauk kl. 18.30.

 

Truflanir hófust í Grafningi og Þingvallasveit upp úr kl.18. Í ljós kom að slit var á línunni milli Nesja og Þingvalla. Línan var aftengd kl. 2 í nótt og viðgerð lokið kl. 8:30 í morgun.

 

Á Vesturlandi urðu minniháttar truflanir seinni partinn í gær í Hvalfjarðarbotni, Reykholtsdal og Melasveit sem snerti fáa notendur og stóðu stutt yfir.

 

Á Norðurlandi urðu engar truflanir af völdum veðurs ef frá er talið útleysing á 66/33/11 kV spenni á Dalvík. Þetta olli straumleysi á Dalvík, Ólafsfirði, Siglufirði og sveitum í kring. Um hálfa klukkustund tók að koma rafmagni á til allra.

 

Á Austurlandi varð straumleysi á Mýrum, Suðursveit og í Öræfum um kl. 21 í gærkvöldi. Vegna mikillar veðurhæðar var erfitt að komast um og fannst bilun ekki fyrr en eftir miðnætti og var rafmagn komið á að Fagurhólsmýri rúmum fjórum tímum síðar. Rafmagn komst á í Skaftafelli um 40 mínútum síðar. Um kl. 1 í nótt varð straumlaust í Nesjum og var viðgerð lokið um klukkustund síðar. Bilun varð á línu í Lóni sem olli straumleysi á einum bæ ásamt Hvalnesvita, en viðgerð lokið um kl. 11 í morgun. Smávægilegar truflanir urðu á Breiðdalsvík.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

SKIPTIBORÐ

Sími: 528 9000
Fax: 528 9009
Opið:
Mán-fim 8-16 og fös 8-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Bilanir Vesturlandi: 528 9390
Bilanir Norðurlandi.: 528 9690
Bilanir Austurlandi: 528 9790
Bilanir Suðurlandi: 528 9890
Rarik