Búist er við aftakaveðri víðast hvar á landinu í dag þriðjudag og á morgun miðvikudag. Miklar líkur eru á að veðrið muni hafa áhrif á afhendingu rafmagns þar sem hætta er á slæmri ísingu víða um land. Í ljósi þess er RARIK í viðbragðsstöðu á öllum starfsstöðvum til að bregðast við hugsanlegum bilunum á dreifikerfinu.
Endurnýjun loftlínudreifikerfisins með jarðstrengjum hefur verið langstærsta verkefni RARIK frá árinu 1992 og eru 62% kerfisins nú þegar komin í jörð. Sá hluti kerfisins sem er enn í loftlínum, er um 38% og er hann viðkvæmur fyrir áhrifum mikillar ísingar eins og spáð er næstu tvo daga og verður því vaktaður sérstaklega.
Uppfært 10.12.2019 kl. 10:35:
Þegar búast má við rafmagnstruflunum er ráðlegt að slökkva á þeim rafmagnstækjum, sem slökkva ekki á sér sjálf þegar rafmagni slær út og sem geta valdið tjóni þegar rafmagn kemur á að nýju. Þetta á meðal annars við um eldavélar og fleiri hitunartæki en einnig er ráðlegt að slökkva á viðkvæmum tækjum á borð við sjónvörp. Þá hefur reynst mörgum vel að að eiga vasaljós að grípa til því farsímaljós eru fljót að tæma farsímarafhlöður enda símarnir orkufrekir.
Við sendum út upplýsingar í SMS skilaboðum til þeirra viðskiptavina sem verða rafmagnslausir. Þeir sem eru í netsambandi geta fylgst með stöðu mála í rafdreifikerfinu í kortasjá á forsíðu rarik.is. Bilanavakt er starfrækt allan sólarhringinn og bilanasímanúmer eru talin upp neðst í fæti vefsins.
Frekari upplýsingar um stöðu truflana í dreifikerfinu: