ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

RARIK greiðir ekki út arð og eykur fjárfestingar

Rekstur RARIK gekk vel á árinu 2019 þrátt fyrir tjón vegna óveðurs í lok ársins og var afkoman að mestu í samræmi við áætlanir. Hagnaður RARIK á árinu 2019 var um 2,7 milljarðar króna en það er tæplega 2% lækkun frá árinu áður. Horfið hefur verið frá fyrri áætlun um að greiða 310 milljónir króna arð til eigenda en þess í stað ákveðið að nýta það fjármagn á árinu í flýtiaðgerðir við endurnýjun dreifikerfisins.

Þetta er meðal þess sem fram kom á aðalfundi RARIK sem haldinn var við fremur óvenjulegar aðstæður í dag. Vegna COVID 19 og samkomubanns fór aðalfundur RARIK að þessu sinni fram í gegnum fjarfundarbúnað og var í beinni opinni útsendingu á vefslóð sem birt var á vef RARIK. Aðeins forstjóri og framkvæmdastjóri fjármálasviðs voru auk fundarstjóra á fundarstað í aðalstöðvum RARIK en aðrir aðalfundarfulltrúar voru í netsambandi.

 

Fjárfest fyrir 5,5 milljarða

Á fundinum kom fram að rekstrartekjur RARIK árið 2019 hækkuðu um tæpt 1% frá árinu 2018 og námu 16.777 milljónum króna en rekstrargjöld hækkuðu um tæp 2% frá fyrra ári og námu 13.276 milljónum króna. Heildareignir RARIK í lok árs 2019 voru 68,3 milljarðar króna, eigið fé nam 43,9 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall því 64,3%. Fjárfest var fyrir 5,5 milljarða króna á árinu sem er 1,8 milljarði meira en árið áður. Alls var fjárfest í endurnýjun og aukningu dreifikerfisins fyrir um 2.7 milljarða kr. sem er um 317 milljóna kr. aukning frá 2018.

 

65% dreifikerfis í jarðstrengjum

Líkt og undanfarin ár var unnið að endurnýjun og styrkingu dreifikerfisins samkvæmt fyrirliggjandi langtímaáætlun og var um 65% af háspennudreifikerfi RARIK í þriggja fasa jarðstrengjum í árslok. Á árinu voru lagðir tæpir 350 km af háspennujarðstrengjum til endurnýjunar og aukningar á 11 og 19 kV dreifikerfum í dreifbýli auk um 85 km vegna endurnýjunar á sameiginlegu stofnkerfi fyrir dreifbýli og þéttbýli.

 

Samkvæmt langtíma áætlun RARIK um endurnýjun dreifikerfisins hefur verið gert ráð fyrir að henni ljúki á árinu 2035. Á liðnu ári beittu stjórnvöld sér fyrir því að ákveðnum verkefnum sem voru á áætlun seint á tímabilinu var flýtt. Á fundinum kom fram að aðkoma stjórnvalda mun hafa þau áhrif að nú lítur út fyrir að nær allir stórnotendur verði komnir með þriggja fasa jarðstrengi á næstu 5 árum og öll býli í ábúð á næstu 10 árum. Jafnframt kom fram að stjórnvöld eru með áform um að flýta enn frekar endurnýjun dreifikerfisins á þessu og næstu árum.

 

Á fundinum kom fram að í óveðrinu í desember 2019 brotnuðu ríflega 140 staurar í kerfi RARIK sem auk annarra skemmda ollu 52 truflunum í kerfi RARIK og skerti raforkuafhendingu til notenda um 347 MWst. Það er meira en sem nemur samanlegðri skerðingu vegna allra fyrirvaralausra truflana í kerfi RARIK síðustu þrjú ár á undan.

 

Stjórn RARIK var endurkjörinn á aðalfundinum í dag, en hana skipa: Birkir Jón Jónsson, formaður, Arndís Soffía Sigurðardóttir, Álfheiður Eymarsdóttir, Kristján L. Möller og Valgerður Gunnarsdóttir.

 

Nánari upplýsingar:

Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri, s: 528 9000

 

Frá aðalfundi 2020
Aðalfundur RARIK var haldinn var við fremur óvenjulegar aðstæður vegna COVID-19 og samkomubanns.
Frá aðalfundi 2020
Aðalfundur RARIK var aðgengilegur eingöngu í gegnum fjarfundarbúnað.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

SKIPTIBORÐ

Sími: 528 9000
Fax: 528 9009
Opið:
Mán-fim 8-16 og fös 8-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Bilanir Vesturlandi: 528 9390
Bilanir Norðurlandi.: 528 9690
Bilanir Austurlandi: 528 9790
Bilanir Suðurlandi: 528 9890
Rarik