ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Rafvæðingu í Langadal og Básum að ljúka

RARIK hefur nú lokið við að leggja 3.800 metra jarðstreng í Þórsmörk frá Húsadal í Langadal og Bása í Goðalandi og standa vonir til að hægt verði að taka hann í notkun á næstunni. Rafmagn var lagt í Húsadal sem er næst mannabyggð fyrir átta árum og hefur forsvarsmönnum skálanna í Langadal og í Básum dreymt um að fá rafmagn allar götur síðan. Samhliða strenglögninni var ný vatnslögn lögð í leiðinni.

Þórsmörk er á náttúruminjaskrá og lagnaleiðin er um viðkvæm svæði sem eru torveld yfirferðar. Því þurfti að gæta ítrustu varúðar og útsjónarsemi við verkið. Lagnaleið var valin í samráði við Skógræktina til að lágmarka umhverfisáhrif og var fulltrúi hennar viðstaddur þegar farið var í gegnum skógræktarsvæðið. Jarðstrengurinn var að mestu plægður í jörð en það þurfti að fleyga og grafa á um 200 metra kafla.

 

Lítil verksummerki

 

Verkið gekk mjög vel en áður en það hófst var leitað umsagna Skipulagsstofnunar, Rangárþings eystra, Ferðamálastofu, Fiskistofu, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Minjastofnunar Íslands, Orkustofnunar, Skógræktarinnar og Umhverfisstofnunar. Stefán Jökull Jakobsson, umsjónarmaður skála Ferðafélags Íslands í Langadal, sagði í Bylgjufréttum að verksummerki og rask vegna framkvæmdanna séu með ólíkindum lítil. Jarðýtur á afar stórum beltum hafi verið notaðar og telur Stefán að verksummerki verði vart sjáanleg þegar frost fer úr jörðu.

 

Framkvæmdakostnaður Ferðafélags Íslands vegna framkvæmdarinnar nemur að sögn Stefáns um fjórum milljónum króna og telur hann að kostnaður Útivistar vegna rafvæðingar aðstöðunnar í Básum verði álíka mikill. Með því að tengjast rafmagni verður hins vegar hægt að spara kostnað vegna notkunar á um 12.000 lítrum af olíu sem notuð hefur verið til að kynda skálana til þessa. Eru þá ótaldar ferðir sem hægt verður að fækka vegna gasflutninga á svæðið.

 

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélagsins segir rafvæðingu skálanna í senn hagkvæma og umhverfisvæna og að hún muni gjörbreyta aðstöðu ferðafólks og þeirra sem starfa við ferðaþjónustu á svæðinu.

Mynd 1
Leita þurfti umsagnar fjölmargra aðila áður en verkið gat hafist og var lagnaleiðin valin í samráði við Skógræktina.
Mynd 2
Grafa þurfti mikla rás í aurinn sem Krossá hefur hlaðið upp á milli ára til að hægt væri að plægja strenginn nógu djúpt í jörðu.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

SKIPTIBORÐ

Sími: 528 9000
Fax: 528 9009
Opið:
Mán-fim 8-16 og fös 8-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Bilanir Vesturlandi: 528 9390
Bilanir Norðurlandi.: 528 9690
Bilanir Austurlandi: 528 9790
Bilanir Suðurlandi: 528 9890
Rarik