ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Rafmagnstruflanir 14. febrúar og afleiðingar þeirra

Mikið óveður gekk yfir landið 14.febrúar síðastliðinn og voru afleiðingar þess töluverðar, sérstaklega á Suðurlandi og Suðausturlandi. Veðrið olli umtalsverðu tjóni á línukerfum RARIK og einnig voru truflanir í kerfi Landsnets sem höfðu áhrif á viðskiptavini RARIK. Um 5.600 heimili og vinnustaðir urðu rafmagnslaus og heildarkostnaður RARIK vegna óveðursins er ríflega 80 mkr.

Kerfi RARIK er eitthvað laskað eftir þennan hvell, sérstaklega á Suðurlandi. Starfsmenn okkar hafa skoðað og munu halda áfram að skoða þau svæði sem urðu verst úti til að finna veikleika í kerfinu. Það má því búast við einhverju rafmagnsleysi vegna þessa á næstunni, bæði fyrirvaralausum truflunum, en einnig þegar rafmagn verður tekið af vegna viðgerða.

 

Víðtækasta rafmagnsleysið varð á Suðurlandi, en einnig á Vesturlandi, Norðurlandi vestra og eystra og á Austurlandi. Mynd hér að neðan sýnir þær truflanir og bilanir sem urðu í kerfi RARIK þennan dag. Alls er vitað um 108 brotna staura í kerfi RARIK, en einnig brotnaði mikill fjöldi sláa auk línuslits, brotinna einangrara, slitinna bindinga og slíkra hluta.

  • Á Suðurlandi urðu flestar bilanir og þær sem ollu lengstu rafmagnsleysi. Langflestir staurarnir sem brotnuðu eða 99 voru á þessu svæði. Þær línur sem fóru verst voru Hólmsá-Skálm, Stóra Mörk/Rauðuskriður, Landeyjar og svokölluð Hitaveitulína fyrir norðan Hellu. Í Landeyjum var ákveðið að leggja streng frekar en að endurbyggja línuna. Endanlegum viðgerðum er lokið þar sem vitað er um bilanir, en eins og áður segir er búist við að ýmislegt smávægilegt geti komið í ljós á næstu vikum og mánuðum. Rafmagnstruflanir voru í Vík og í Mýrdal í yfir 20 tíma. Stærstan hluta þess tíma var keyrt varaafl í Vík og þurfti að skammta rafmagn þar. Langflestir sem urðu fyrir truflunum voru komnir með rafmagn innan 5-7 klukkustunda. Á einhverjum bæjum voru keyrðar varavélar og í einstaka tilfellum var rafmagnslaust í meira en sólarhring.
  • Á Suðausturlandi varð allt sveitarfélagið Hornafjörður rafmagnslaust vegna bilunar í línu Landsnets. Skömmu síðar bilaði lína RARIK Hólar-Höfn þegar 8 staurar brotnuðu. Einnig var spennir RARIK á Hólum enn bilaður eftir óveðrið sem geisaði í desember. Allt svæðið var rafmagnslaust í tæpar fimm klukkustundir. Nokkuð vel gekk að koma á rafmagni aftur í þéttbýlinu á Höfn, en heldur lengur í sveitunum. Þeir sem lengst voru án rafmagns voru rafmagnslausir í um 8 klukkustundir.
  • Á Austurlandi varð rafmagnstruflun á Vopnafirði vegna seltuvandamála
  • Á Norðurlandi urðu nokkrar truflanir í kerfi RARIK, en ekkert stórvægilegt og ekki varð víðtækt rafmagnsleysi af þeim völdum. Mest var um seltuvandamál og samslátt en eitthvað þurfti að gera við af minni bilunum.
  • Á Vesturlandi urðu nokkrar bilanir. Lengstu truflanirnar urðu við Kljáfoss og í botni Hvalfjarðar.

Veðrið sem gekk yfir landið var mjög slæmt og náði yfir stórt svæði. Veðurspáin gekk vel eftir og var RARIK búið að undirbúa sig eins og hægt var í samræmi við hana. Farið var yfir efni, verkfæri, búnað, bíla, rætt við verktaka, o.s.frv. Hugað var að staðsetningu færanlegra varaaflsvéla fyrirtækisins og þær staðsettar þar sem talið var að þeirra yrði mest þörf. Varaaflsstöðvar voru mannaðar og mannskap dreift í ljósi veðurspár og að fengnum ráðleggingum veðurfræðinga.

 

Þann 13.febrúar var Neyðarstjórn RARIK virkjuð og óvissustigi lýst yfir. Ljóst var að öll svæði RARIK þurftu að vera í viðbragðsstöðu. Um leið og lá fyrir hvar voru bilanir í kerfinu var byrjað að flytja fólk á milli svæða til að flýta viðgerðum eins og frekast var hægt.

 

Óveðrið 14. febrúar var mjög ólíkt því sem gekk yfir í desember. Það stóð yfir í mun skemmri tíma og hægt var að hefja bilanaleit og viðgerðir mun fyrr. Þó að fleiri óveður hafi gengið yfir í kjölfarið náðist að halda áfram viðgerðum og er þeim nú að mestu lokið. Fjölmargir starfsmenn RARIK stóðu vaktina í marga sólarhringa og einnig naut RARIK aðstoðar ýmissa verktaka og fyrirtækja. Öllu þessu fólki þökkum við aðstoðina og viðskiptavinum okkar sem urðu fyrir rafmagnleysi í kjölfar óveðursins þökkum við þolinmæði og skilning við þessar erfiðu aðstæður.

Yfirlitskort yfir truflanir 14. febrúar 2020
Yfirlit um truflanir/tjón á dreifikerfi RARIK vegna óveðurs 14. febrúar
Staurabrot á Klausturlínu
Staurabrot á Klausturlínu.
Ísing á niðurtaki í streng á línu Landsnets við Höfn
Ísing á niðurtaki í streng á línu Landsnets við Höfn sem olli útleysingu þar.
Nærmynd af ísingu á Klausturlínu.
Nærmynd af ísingu á Klausturlínu.
Endamastur á 11 kV línu sem liggur frá Hölum niður á Höfn sem brotnaði
Endamastur á 11 kV línu sem liggur frá Hölum niður á Höfn sem brotnaði.
Línuslit á Suðurlandi
Línuslit á Suðurlandi.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

SKIPTIBORÐ

Sími: 528 9000
Fax: 528 9009
Opið:
Mán-fim 8-16 og fös 8-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Bilanir Vesturlandi: 528 9390
Bilanir Norðurlandi.: 528 9690
Bilanir Austurlandi: 528 9790
Bilanir Suðurlandi: 528 9890
Rarik