Ný aðveitustöð við Grímsá var að fullu tekin í notkun um síðustu mánaðarmót. Aðveitustöðin þjónar viðskiptavinum á Völlum, Skriðdal og Fljótsdal. Svæðið hefur tengst aðveitustöðinni á Eyvindará frá því að úttak frá Landsneti á Hryggstekk var lagt af haustið 2013. Með þessu eykst rekstraröryggi og afhendingargeta á þjónustusvæði stöðvarinnar.
Byggingarverktaki byggingarinnar var MVA ehf. á Egilsstöðum og eftirlit var í höndum verkfræðistofunnar Eflu. Háspennuskápar voru hannaðir og smíðaðir hjá Orkuvirki ehf. og spennirinn var keyptur frá Koncar í Króatíu. Starfsmenn RARIK sáu um uppsetningu og tengingar búnaðar.
Heildarkostnaður við aðveitustöðina var 202 milljónir króna, þar af var kostnaður við húsið 113 milljónir, en kostnaður við spenni og annan rafbúnað 89 milljónir króna.