ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Ný aðveitustöð á Sauðárkróki og aukið afhendingaröryggi

Ný og stærri aðveitustöð RARIK á Sauðárkróki hefur verið tekin í notkun og var spennusett frá flutningskerfi Landsnets í gær fimmtudaginn 3. júní, en hún verður jafnframt öflugasta aðveitustöðin í dreifikerfi RARIK. Um leið eykst til muna afhendingaröryggi raforku á svæðinu. Dreifikerfi RARIK í Skagafirði tengist flutningskerfi Landsnets bæði í Varmahlíð og á Sauðárkróki. Fram til þessa hefur afhendingin á Sauðárkróki verið um einfalda línu Landsnets, en fer nú um tvær tengingar frá tengivirkinu í Varmahlíð. Aðveitustöð RARIK tengist flutningskerfinu síðan um tvo aðskilda spenna á Sauðárkróki. Um er að ræða framkvæmdir hjá RARIK fyrir um 370 milljónir.

Stærri og fleiri spennar

Í nýju aðveitustöðinni á Sauðárkróki eru tveir 20 MVA 66/11 kV aflspennar og einn 3 MVA 33/11kV spennir í stað eins 10 MVA 66/11kV aflspennis og eins 2 MVA 33/11kV spennis í gömlu aðveitustöðinni. Hægt verður að reka innanbæjarkerfið á Sauðárkróki og sveitirnar í kring á hvorum hinna stóru spenna fyrir sig og má því segja að komin sé tvöföld tenging fyrir Sauðárkrók og jafnvel þreföld tenging fyrir sveitina ef tekin er með tenging við aðveitustöðina í Varmahlíð. Þar er nú verið að setja hluta Glaumbæjarlínu í jörð. Í aðveitustöðinni á Sauðárkróki eru sautján 11 kV háspennuskápar og tveir 33 kV háspennuskápar.

 

Samstarfsverkefni

Undirbúningur þessa verks hefur staðið lengi og verið í góðu samstarfi við Landsnet sem síðastliðinn mánudag setti í fyrsta skipti spennu á nýjan jarðstreng, Sauðárkrókslínu 2, sem tengist nýju 66kV tengivirki Landsnets í Varmahlíð. Nýja tengivirki Landsnets á Sauðárkróki var spennusett í kjölfarið. Undanfarið hefur búnaðurinn verið í prufukeyrslu. Samhliða þessu hefur RARIK endurnýjað nánast allan búnað sinn í tengivirkinu í Varmahlíð. Í nýrri Sauðárkrókslínu 2 hefur 66kV jarðstrengur verið lagður til viðbótar 66kV loftlínu sem fyrir var og því ættu óveður ekki lengur að valda rafmagnsleysi á svæðinu. Spennusetning nýrrar og stærri aðveitustöðvar RARIK á Sauðárkróki er síðan þriðji hlekkurinn í þessari endurbótakeðju.

 

Ánægjulegur áfangi

Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIK segir endurbæturnar í Skagafirði ánægjulegan áfanga í auknu afhendingaröryggi raforku á svæðinu. „Það hefur verið vaxandi orkuþörf í takti við aukna uppbyggingu í Skagafirði og því mikilvægt að styrkja orkuflutning- og dreifingu á svæðinu, en ekki síður að auka afhendingaröryggið. Við vonum að truflanir á raforkuafhendingu heyri brátt til algjörra undartekninga en þær hafa verið of algengar á síðustu árum. Því er ástæða til að óska Skagfirðingum til hamingju á þessum tímamótum“, segir Tryggvi Þór.

 

Fréttin var uppfærð 14.06.2021.

Ný aðveitustöð á Sauðárkróki var spennusett í júní 2021
Ný og stærri aðveitustöð RARIK á Sauðárkróki er nú sú öflugasta í dreifikerfi fyrirtækisins.
Stæða af 11 kV háspennuskápum í nýju aðveitustöðinni
Stæða af 11 kV háspennuskápum í nýju aðveitustöðinni.
Tveir 20 MVA aflspennar voru teknir í hús í október 2020
Tveir 20 MVA aflspennar voru teknir í hús í október 2020.
Nýr 20 MVA aflspennir tekinn í aðveitustöðvarhús á Sauðárkróki í október 2020
Nýr 20 MVA aflspennir tekinn í aðveitustöðvarhús í október 2020.
Á meðan framkvæmdum stóð vegna nýrrar aðveitustöðvar á Sauðárkróki í nóvember 2020
Á meðan framkvæmdum stóð í nóvember 2020.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

SKIPTIBORÐ

Sími: 528 9000
Fax: 528 9009
Opið:
Mán-fim 8-16 og fös 8-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Bilanir Vesturlandi: 528 9390
Bilanir Norðurlandi.: 528 9690
Bilanir Austurlandi: 528 9790
Bilanir Suðurlandi: 528 9890
Rarik