Fellivalmynd
Rarik
Leit
Leit

Í þjónustu lands og þjóðar í 70 ár

Á árinu 2017 eru 70 ár liðin frá því að Rafmagnsveitur ríkisins (skammstafað RARIK) hófu starfsemi sína, en þær voru stofnaðar með lögum í apríl 1946 og hófu starfsemi í ársbyrjun 1947.

Í lögunum sagði m.a.: „Rafmagnsveitur ríkisins skulu hafa það verkefni að afla almenningi og atvinnuvegum landsins nægrar raforku á sem hagfelldastan og ódýrastan hátt…“ Meginverkefni RARIK í gegnum árin hefur því verið rafvæðing, raforkudreifing, framleiðsla, kaup og sala á raforku á landsbyggðinni, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Á seinni árum hefur rekstur hitaveitna bæst við starfsemina.

Upphafsárin

 

Upphafsárin

 

Á upphafsárum RARIK var rafvæðing dreifbýlisins stærsta verkefnið, ásamt framleiðslu raforku með dísilvélum og minni virkjunum. Eftir það fékk RARIK það verkefni að samtengja landsbyggðina með byggingu byggðalínu. Við það hætti raforkuframleiðsla með dísilvélum og voru þær eingöngu notaðar sem varaafl þegar truflanir urðu á línukerfinu og er svo enn. Þegar hringnum var lokað 1984 færðist byggðalínan yfir til Landsvirkjunar og síðar til Landsnets.

 

Breytingar

 

Allmiklar breytingar hafa orðið á starfsemi RARIK á þessum 70 árum. Orkubú Vestfjarða var stofnað 1978 og tók yfir rekstur raforkukerfisins á Vestfjörðum, sem áður hafði verið hjá RARIK. Hitaveita Suðurnesja var stofnuð 1985 og tók yfir rekstur raforkukerfisins á Suðurnesjum, sem áður hafði verið að stórum hluta hjá RARIK. Kröfluvirkjun færðist til Landsvirkjunar 1985, en RARIK var falið árið 1978 að ljúka við virkjunina og koma henni í fullan rekstur. RARIK keypti fjarvarmaveitu Hafnar í Hornafirði og einnig hita- og rafveitu Siglufjarðar og Skeiðsfossvirkjun 1991 og fjarvarmaveitu Seyðisfjarðar 1992. Þá var rafveita Borgarness, ásamt rafveitu Hvanneyrar, keypt 1995. Rafveita Hveragerðis var keypt árin 2000 og rafveita Sauðárkróks 2001. Hitaveita Dalabyggðar var keypt 2003 og hitaveita Blönduóss 2005. Loks var rafveita Húsavíkur keypt árið 2010. Árið 2012 var lokið við lagningu hitaveitu á Skagaströnd og hún sameinuð hitaveitunni á Blönduósi, en á Skagaströnd er fyrsta jarðhitaveita sem RARIK hefur byggt frá grunni.

Breytt rekstrarumhverfi
Úr starfsemi RARIK í gegnum tíðina

 

Breytt rekstrarumhverfi

 

Breytingar á rekstrarumhverfi RARIK urðu við stofnun Landsvirkjunar 1965 og við endurskoðun raforkulaga 1967, en mestu breytingar á rekstrarumhverfinu urðu við breytingar á raforkulögum árið 2003, þegar ákveðið var að aðskilja framleiðslu, flutning, dreifingu og sölu á raforku. Samkeppni var komið á í framleiðslu og sölu og hluti af línukerfi RARIK fór út úr fyrirtækinu inn í nýtt flutningsfyrirtæki og eignaðist RARIK við það rúm 20% í Landsneti hf. Einnig var rekstri fyrirtækisins skipt upp milli einkaleyfisstarfsemi og samkeppishluta, í fyrstu með aðgreiningu í bókhaldi, en 2006 var RARIK breytt í opinbert hlutafélag, RARIK ohf. og ári seinna var dótturfélagið Orkusalan ehf. stofnað til þess að halda utan um samkeppnisþættina, framleiðslu og sölu raforku. Virkjanir samstæðunnar og öll sala á raforku til viðskiptavina fór við það yfir til Orkusölunnar. RARIK Orkuþróun ehf. var stofnað 2008 til að halda utan um ákveðin þróunarverkefni bæði erlendis og innanlands og Ljós- og gagnaleiðari ehf. var stofnað árið 2009 til að halda utan um ljósleiðaraeign samstæðunnar.

Markaðshlutdeild

 

RARIK í dag

 

RARIK rekur nú umfangsmikið dreifikerfi fyrir raforku, sem samanstendur af um 8.700 km af háspennukerfi, um 4.600 km af lágspennukerfi, yfir 50 aðveitustöðvum og tæplega 5.700 dreifistöðvum. Allt lágspennukerfið er í jarðstrengjum og nú eru tæp 60% háspennukerfisins einnig komin í jarðstrengi. Þá rekur RARIK fimm hitaveitur, þar af þrjár jarðvarmaveitur og tvær fjarvarmaveitur. Orkusalan, dótturfélag RARIK, á og rekur fimm virkjanir og er annað af tveimur stærstu orkusölufyrirtækjum á almennum markaði.

Hlutverk og stefna
Dreifikerfi RARIK í janúar 2017

 

Hlutverk og stefna

 

Hlutverk RARIK í dag er að veita heimilum og fyrirtækjum veituþjónustu á sviði raforku og hitaveitu sem er forsenda búsetu og lífsgæða á starfssvæði félagsins. Öll starfsemi og þróun RARIK miðar að því að vera framsækið þekkingar- og þjónustufyrirtæki sem nýtur trausts og virðingar í samfélaginu. Árangur í starfseminni byggist víðtæku veitukerfi félagsins ásamt þeirri þekkingu, mannauði og þjónustuneti sem nauðsynlegt er til að reka það af öryggi og hagkvæmni. Kjarninn í stefnu og áherslum félagsins er að styrkja þessa grunnþætti og vinna sífellt að því að auka þjónustugæði og afhendingaröryggi. Stefna félagsins er að styrkja þjónustunet þess þar sem áhersla er á áreiðanlegt dreifikerfi og öflugar starfsstöðvar sem geta veitt víðtæka þjónustu.

Hjá RARIK samstæðunni starfa nú tæplega 200 manns, þar af rúmlega 180 hjá móðurfélaginu. Starfsmenn samstæðunnar dreifast á 22 starfsstöðvar.

Starfsstöðvar RARIK
Starfsstöðvar RARIK samstæðunnar og fjöldi starfsmanna á hverjum stað í janúar 2017

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

SKIPTIBORÐ

Sími: 528 9000
Fax: 528 9009
Opið:
Mán-fim 8-16 og fös 8-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Bilanir Vesturl.: 528 9390
Bilanir Norðurl.: 528 9690
Bilanir Austurl.: 528 9790
Bilanir Suðurl.: 528 9890
Rarik