Aðfaranótt 16. mars kom ísingarveður í Skaftárhreppi. Úrkoman var umtalsverð og hitastigið var á því bili að krapi myndaðist og ísing á línum.
Þetta var staðbundið ástand í kringum austanverðan Mýrdalssand og í Meðallandi. Samkvæmt sjónarvottum var mjög mikil ísing á línunum og fékk RARIK m.a. aðstoð frá björgunarsveitum til að hreinsa ísinguna af. Þrátt fyrir þá góðu hjálp varð verulegur skaði á línukerfi RARIK á þessum svæðum.
RARIK fékk fyrst upplýsingar um rafmagnsleysi í Meðallandi um kl. 02:45 aðfaranótt 16. mars. Þá var viðskiptavinur sem tilkynnti búinn að vera rafmagnslaus frá því um eitt leytið um nóttina. Við skoðun á linunni kom í ljós að fjórir staurar voru brotnir og vír víða slitinn. Skipt var um staura, einangrara, toppjárn og fleira og einnig var gert við slit á línum. Allir notendur í Meðallandi voru komnir með rafmagn kl. 22:38.
Í Skaftártungu og Álftaveri varð rafmagnslaust kl. 04:42 þegar línan Klaustur-Vík leysti út. Töluvert var um línuslit og miklar skemmdir á línunni milli Hrífuness og Skálmar. Farið var í viðgerðir og hægt var að koma á rafmagni til allra kl. 13:35. Línur eru þó enn slitnar á svæðinu og er Álftaver nú tengt frá Vík, en er venjulega tengt frá Klaustri.
Klukkan 07:42 leysti útgangur fyrir Mýrdal út í aðveitusstöðinni í Vík og Mýrdalur varð rafmagnslaus. Vegna ísingarvandamála annars staðar í kerfinu voru fyrstu viðbrögð RARIK að telja að hér væri um truflun vegna ísingar á línukaflanum yfir Reynisfjall. Svo reyndist ekki vera heldur var ástæðan bilun í strengkerfinu í Mýrdal. Þegar öll kurl voru komin til grafar þá voru bilanir á strengnum á þremur mismunandi stöðum. Síðasti viðskiptavinurinn var því ekki kominn með rafmagn fyrr en kl. 05:10 að morgni 17. mars. Þessu til viðbótar var tilkynnt um straumleysi í Garði Reynisfjöru og kom í ljós að spennir þar var ónýtur. Búið var að skipta um spenni og notandi kominn með rafmagn kl. 22:53. Ekki er á þessu stigi málsins vitað hvað olli strengbiluninni í Mýrdal en RARIK vinnur að því að greina orsakir.
Bilanirnar voru umfangsmiklar og tímakrefjandi að fá yfirsýn og gera við. RARIK biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þessi straumleysi hafa haft í för með sér. Í einhverjum tilfellum var gripið til bráðabirgðaviðgerða og endanlegar viðgerðir geta haft eitthvað straumleysi í för með sér síðar.